Laxeldi: tveimur kærum hafnað

Sjókvíar í Patreksfirði. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hafnaði í síðustu viku tveimur kærum frá eiganda Efri-Tungu II og eiganda helmings hlutar í Efri-Tungu í Örlygshöfn við Patreksfjörð varðandi breytingar á leyfi Arctic Sea Farm til sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Umhverfisstofnun hefur breytt starfsleyfinu og Matvælastofnun hefur breytt rekstrarleyfinu þannig að staðsetningu eldissvæða er breytt,svo og hvíldartíma eldissvæðanna og veitt er heimild til notkunar ásætuvarna sem innihalda koparoxíð.

Kærendur hafa kært þessar breytingar og er þess krafist að ákvörðun stofnanna verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að synja umsókn leyfishafa um breytingu á starfsleyfi.

Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Það þýðir með öðrum orðum að fyrirtækið nyti ekki breytinganna á leyfunum meðan málareksturinn stæði fyrir nefndinni.

Úrskurðarnefndin hefur kærurnar til meðferðar, en þær bárust í síðasta mánuði, en hefur þegar hafnað kröfunni um frestun réttaráhrifa.

Í úrskurðu nefndarinnar segir að samkvæmt upplýsingum frá leyfishafa verður hið umdeilda eldissvæði ekki tekið í notkun fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2024 þegar núverandi fiskeldislotu í Patreksfirði lýkur með slátrun eldisfisks og að loknum hvíldartíma, en úrskurðar í málinu er að vænta fyrir þann tíma. „Með þessu verður ekki séð að kæra verði þýðingarlaus fyrir kæranda þótt hafnað verði kröfu hans um frestun réttaráhrifa á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni eða að af því hljótist tjón fyrir hann sem erfitt verði að ráða bót á.“

 

DEILA