Landsnet: nýtt tengivirki í Breiðadal

Ísafjarðarbær hefur samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir nýtt tengivirki sem kemur í stað þess gamla í Breiðadal. Lagðir hafa verið fram séruppdrættir tengdir jarðvinnu og undirstöðum frá Eflu dags. 02.06.2022 ásamt greinagerð ásamt samþykki meðeiganda lóðar fyrir framkvæmdum.

Fyrirhugað er að endurnýja tengivirkið í Breiðadal þar sem byggt verður nýtt yfirbyggt 66 kV gaseinangrað tengivirki, með 4 rofareitum ásamt rými fyrir einn viðbótarrofareit, á sama stað sem leysir af hólmi núverandi virki.

Um er að ræða allt að 130 m² byggingu sem verður um 8 m á hæð, með áherslu á snyrtilega ásýnd. Í kjölfar gangsetningar nýs tengivirkis verður núverandi tengivirki tekið niður. Framkvæmdin verður unninn í samstarfi við Orkubú Vestfjarða.

Tengivirkið í Breiðadal var tekið í notkun árið 1986 en Landsnet segir að rekstur þess hafi hefur verið erfiður  undanfarin ár vegna seltu, snjósöfnunar og ísingar. Virkið er mikilvægur tengipunktur þar sem kemur saman eina tenging Ísafjarðar og Bolungarvíkur við meginflutningskerfið um Breiðadalslínu 1, sem liggur á milli Breiðadals og Mjólkárvirkjunar. 

Áætlað var að framkvæmdir hæfust vorið 2022 og spennusetning yrði í árslok 2023.  Miðað við þau áform virðist einhver seinkun líkleg.

DEILA