Ísofit málið: Ísafjarðarbær krefst endurupptöku – fékk ekki tilkynningu um kæru

Studio Dan.

Ísafjarðarbær gerði þann 27.7. í sumar kröfu til endurupptöku málsins Þrúðheimar gegn Ísafjarðarbæ, en Innviðaráðuneytið úrskurðaði að  styrkveiting sveitarfélagsins til reksturs líkamsræktarstöðvar Ísofit væri ólögmæt. Styrkurinn er 400 þúsund krónur á mánuði í 3 ár.

Það var sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og bæjarritari sem sendi inn erindið. Fram kemur í því að ekki verði séð í tölvukerfum sveitarfélagsins að póstar frá ráðuneyti um tilkynningu kæru hafi borist og umsagnarbeiðni né ítrekun þar að lútandi. Þá segir einnig að ekki fáist staðfest frá ráðuneyti að póstar hafi í raun borist sveitarfélaginu þar sem loggskrám hefur verið eytt hjá ráðuneyti.

Ennfremur segir í erindi Ísafjarðarbæjar að ítrekað hafi verið sendar beiðnir til ráðuneytisins um afhendingu upphaflegrar kæru og fylgigögn hennar, en þau gögn ekki enn borist, þrátt fyrir að þá hafi verið tæplega mánuður liðinn frá því að úrskurður barst sveitarfélaginu.

Upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar segir að eina réttarúrræði sveitarfélagsins þegar svona háttar til sé að óska eftir endurupptöku málsins, til að halda uppi rétti sveitarfélagsins. Gögnin hafa nú borist og þarf sveitarfélaginu að gefast ráðrúm til að fara yfir þau. Enn er unnið að þeim hluta málsins sem snýr að því að upphafleg kæra og gögn bárust ekki heldur frá ráðuneytinu.

DEILA