Ísafjörður: unnið að aðgerðaráætlun fyrir nýtt skíðasvæði

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir í vikunni hugmyndir að nýju skíðasvæði á Ísafirði sem fyrirtækið SE Group vann fyrir Ísafjarðarbæ árið 2020. Bæjarráðið fól bæjarstjóra að vinna aðgerðaáætlun til næstu ára, bæði varðandi núverandi rekstur og framtíðarsýn svæðisins og leggja fyrir bæjarráðið.

Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs og forstöðumaður skíðasvæða Ísafjarðarbæjar telja bæði mikilvægast að byrja á gerð nýs vegar sem tengir saman skíðasvæðin í Tungudal og Seljalandsdal. Með þessum nýja vegi verður kominn nýr upphafspunktur fyrir alpaskíðasvæðið og ætti því næst að færa barnasvæðið þangað.

Í framhaldi af þessum framkvæmdum þarf að mati þeirra að byggja nýjan skíðaskála sem hentar betur nútíma starfsemi og gera bílastæði við nýja upphafspunkt svæðisins. Þarna yrði ekki aðeins nýr upphafsstaður fyrir alpasvæðið heldur fyrir göngusvæðið líka. Það svæði býður upp á meiri flata sem auðveldar byrjendum að stíga sín fyrstu skref á gönguskíðum. Tenging skíðasvæðanna tveggja, með starfsemi undir einu þaki í stað tveggja núna, gefur Ísafjarðarbæ
tækifæri til að hagræða í rekstri. Þessi framkvæmd myndi einnig lengja skíðatímabilið og þannig auka tekjur skíðasvæðisins.

Myndirnar eru úr skýrslu SE Group.

DEILA