Ísafjörður: mikil aðsókn á nýrri hólabraut

Í gær var tekin í notkun ný braut fyrir hjólreiðafólk, svonefnd hólabraut eða pumpubraut, á Ísafirði að viðstöddu miklu fjölmenni. Brautin er við Steiniðjuna og Óliver Hilmarsson segir að brautin hafi verið lögð á síðustu 2 – 3 vikum í sjálfboðavinnu margra sem lögðu hönd á plóg. Ísafjarðarbær, Steiniðjan og Búaðstoð eru meðal margra sem lögðu verkinu lið með því að leggja til aðstöðu, tæki og mannskap. Foreldrar voru dugleg að mæta og taka þátt í undirbúningnum. Guðmundur Kr. Ásvaldsson var löngum stundum á gröfu sinni við verkið og Ágúst Atlason styrkti framtakið með efniskaupum. Óliver segir að stefnt sé að því að gera fleiri brautir.

Hólabraut eða pumpubraut er þannig gerð að unnt er að fara brautina með því að nýta sér hólana til þess að ná ferð og komast áfram án þess að stíga hjólið og listin felst í því að ná færni á því sviði.

Að sögn Ólivers voru mjög margir sem mættu í gær og spreyttu sig á brautinni, jafnvel um 80 manns. Börnin hafa gaman af því að spreyta sig á hjólinu í brautinn. Svæðið er opið og geta hjólreiðamenn farið brautina að vild.

Myndir: Ágúst Atlason.

Hjólareiðar eru fjölskylduíþrótt.
Þessi hjólreiðakappi er í loftköstum.

DEILA