Ísafjörður: hik á bæjarráði varðandi niðurfellingu gatnagerðargjalda?

Tunguhverfi Ísafirði.

Íbúi á Isafirði fer fram á niðurfellingu  gatnagerðargjalda af lóðinni Ártungu 3 á Ísafirði, en fjárhæð gjalds er kr. 6.130.575. Vísar hann til þess í nóvember 2021 árétti bæjarráð að á lóðum þar sem ekki þarf að leggja út í kostnað við úthlutun lóðar vegna gatnagerðar er heimild að fella niður gatnagerðargjöld.

Bæjarráð frestaði afgreiðslu málsins og fól bæjarstjóra að yfirfara þær lóðir í sveitarfélaginu sem gætu fallið undir sérstaka lækkunarheimild, og útfæra samþykkt vegna sérstakrar niðurfellingarheimildar og leggja fram til samþykktar.

Forsaga málsins er að bæjarstjórn samþykkti í maí 2017 að fella niður gatnagerðargjöld af íbúðarhúsnæði, við þegar byggðar götur í sveitafélaginu, væntanlega í þeim tilgangi að hvetja til íbúðabygginga. Samþykktin var bundin við ákveðnar lóðir í sveitafélaginu. Ári síðar var samþykkt að framlengja niðurfellinguna til 1. maí 2019. Í október 2019 var enn framlengt og lagður fram listi af lóðum sem hún náði til. Ártunga 3 er á þeim lista. Í mars 2021 er enn framlengt og nú til loka ársins 2021. Svo er samþykktin áréttuð í nóvember sama ár, eins og umsækjandi vísar til, sem þýðir væntanlega að niðurfellingin hafi verið framlengd fram yfir áramótin síðustu en engin tímamörk eru tilgreind þá.

Þegar erindi um niðurfellingu liggur fyrir er boðuð endurskoðun á reglunum áður en það verður afgreitt.

DEILA