Ísafjarðarbær: útsvar verði 14,52%

Fasteignagjöld hafa hækkað um 50% á fáum árum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að til að útsvar næsta árs 2023 verði óbreytt 14,52%. Hins vegar var frestað að afgreiða tillögur um fasteignagjöldin 2023 og fól bæjarráðið bæjarstjóra að vinna frekar að málinu og leggja fram aftur.

Fyrir bæjarráði lá sameiginleg áskorun frá félagi atvinnurekenda, Húseigendafélaginu og Landssambandi eldri borgara sem send var stjórnvöldum. Þar er skorað á ríki og sveitarfélög að að lækka álagningarprósentu fasteignaskatta og -gjalda og hindra þannig að gífurlegar verðhækkanir á fasteignamarkaði leiði til mikilla hækkana fasteignagjalda á eignir fólks og fyrirtækja.

Fram kemur í erindinu að álagðir fasteignaskattar sveitarfélaganna hækkuðu um 50,2% á hvern íbúa á árunum 2015-2021. Það var rúmlega tvöföld hækkun neysluverðsvísitölu á sama tíma, sem nam 24%.

Þá mun fasteignamat ársins 2023 á landsvísu vera 19,9% hærra en ársins 2022. Án aðgerða af hálfu sveitarfélaganna mun sú hækkun leiða til samsvarandi hækkunar fasteignaskatta og -gjalda. Til samanburðar þá er hækkun vísitölu
neysluverðs undanfarna 12 mánuði 9,7% og hækkun launavísitölu frá júní 2021 til maí 2022 er um 8%.

DEILA