Ísafjarðarbær: samþykkir siðareglur fyrir kjörna fulltrúa

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku siðareglur fyrir kjörna fulltrúa. Í þeim er fjallað um starfsskyldur, valdmörk, trúnað, hagsmunaárekstra, gjafir og fríðindi og stöðuveitingar.

Í reglum þessum er skráð og skilgreind sú háttsemi sem kjörnir fulltrúar vilja sýna af sér við öll sín störf. Lýsa þeir því yfir með undirskrift sinni að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi.

Kjörnir fulltrúar gæta þess að við stöðuveitingar hjá Ísafjarðarbæ liggi einungis málefnalegar forsendur að baki vali á starfsmönnum. Umgjafir og fríðindi segir að kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim, er leita eftir þjónustu Ísafjarðarbæjar, nema að um sé að ræða óverulegar gjafir. Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

Þá ber þeim að forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekja athygli á því ef hætta er á slíkum árekstrum.

Um valdmörk segir í reglunum:

„Kjörnir fulltrúar gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Ísafjarðarbæjar. Þeir sýna störfum og réttindum annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna Ísafjarðarbæjar virðingu í ræðu, riti og framkomu. Bæjarfulltrúar mega ekki hlutast til um að starfsmenn geri neitt það sem hefur þann tilgang að verða kjörnum fulltrúum á beinan eða óbeinan hátt til persónulegs ávinnings, né heldur aðila nátengdum þeim eða ákveðnum hópum eða fyrirtækjum, sem þeir tengjast.“


DEILA