Helgi Jósepsson til Kerecis

Kerecis hefur ráðið Helga Jósepsson sem forstöðumann lögfræði- og skattamála. Helgi kemur til Kerecis frá LS Retail, sem er alþjóðlegt hugbúnarfyrirtæki með íslenskar rætur; með viðskiptavini í 130 löndum, starfssemi í 20 löndum og 12 dótturfyrirtæki. Undanfarin sjö ár hefur Helgi starfað hjá LS Retail með ábyrgð á lögfræði- og skattamálum. Áður starfaði Helgi sem skattalögfræðingur hjá KPMG á Íslandi. Helgi býr að mikilli reynslu á fyrirtækja- og skattarétti og hefur undanfarin ár kennt skattarétt í Háskólanum í Reykjavik. Starfsstöð Helga verður í Reyjavík og mun hann starfa á skrifstofu forstjóra Kerecis.

Helgi á ættir að rekja til Akureryrar þar sem hann gekk í Menntaskólann á Akureyri áður en hann hóf nám í Háskólanum í Reykjavík árið 2004. Helgi er giftur Áslaugu Baldvinsdóttur lækni og eiga þau saman tvíbura fædda árið 2014. Áslaug er ættuð frá Höfða í Grýtubakkahreppi.

Kerecis er frumkvöðull í notkun á roði og fitusýrum í lækningartilgangi. Vörur Kerecis eru m.a. notaðar til meðhöndlunar á sykursýkissárum, brunasárum, munnholssárum og til margskonar uppbyggingar á líkamsvef. Kerecis hefur vaxið ört á síðustu árum og eru starfsmenn fyrirtækisins nú hátt í 400 á heimsvísu.

DEILA