Háskólasetur Vestfjarða fær viðurkenningu

Ármann Jakobsson, Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Hrund Þórarins Ingudóttir sem tók við viðurkenningunni f.h. Katrínar Hrundar Pálsdóttur og Peter Weiss. Mynd: Háskólasetur Vestfjarða.

Háskólasetur Vestfjarða hlaut í gær viðurkenningu fyrir átakið „Íslenskuvænt samfélag – Við erum öll almannakennarar“ á málræktarþingi Íslenskrar málnefndar sem haldið var í Þjóðminjasafni Íslands. Það var Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs, sem veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd Háskólaseturs Vestfjarða og Ólafs Guðsteins Kristjánssonar, umsjónarmanns íslenskukennslu fyrir skiptinema, sem er aðalhvatamaðurinn á bak við átakið en átti ekki heimangengt. 

„Við veitum 1-3 viðurkenningar á ári þeim sem hafa skarað fram úr við eflingu íslenskunnar og það er enginn vafi að þetta átak hefur verið mikil hvatning fyrir þá sem fara um svæðið,“ segir Ármann Jakobsson, formaður Íslenskrar málnefndar. Háskólasetur Vestfjarða fékk aðra af tveimur viðurkenningum sem veittar voru í ár. 

Átakið sem Háskólasetrið hlaut viðurkenninguna fyrir snýr að þeim sem vilja nota íslensku – þau sem kunna málið nú þegar þurfa að temja sér þolinæði og tala hægt og skýrt, þau sem enn kunna lítið í málinu en vilja læra það þurfa á hverju tækifæri að halda til að beita því. 

Ólafur Guðsteinn er eins og áður sagði mesti hvatamaðurinn á bak við átakið en að því standa einnig Fræðslumiðstöð og Ísafjarðarbær. Eins og kunnugt er kennir Ólafur íslenskunámskeið fyrir skiptinema sem Háskólasetrið skipuleggur hvert sumar en átakinu „Íslenskuvænt samfélag“ var ýtt úr vör í vor á vel sóttu málþingi á Ísafirði. 

Ýmsar uppákomur í tengslum við átakið hafa farið fram í Ísafjarðabæ síðan í vor og munu halda áfram fram að Degi íslenskrar tungu í nóvember. 

DEILA