Handbolti: Hörður fékk eldskírnina á Hlíðarenda

Stuðningsmenn Harðar voru nokkuð fjölmennir á pöllunum og létu vel í sér heyra.

Hörður Ísafirði lék sinn fyrsta leik í efstu deild í handknattleik karla í gærkvöldi gegn Val á Hlíðarenda í Reykjavík. Varla var hægt að byrja á erfiðari andstæðing, Valur er besta lið landsins, Íslandsmeistari og handhafi allra titla um þesar mundir. Það sást vel á leik liðsins í upphafi að Hörður var að fóta sig á öðru sviði en þeir hafa verið. Eftir 11 mínútna leik hafði Valur skorað 11 mörk og náð afgerandi níu marka forystu. Í hálfleik höfðu Valsmenn 13 marka forystu 22:9. Í seinni hálfleik náðu Harðarmenn að bæta leik sinn, meiri ró var yfir þeim og sóknarleikurinn áræðnaðri. Seinni hálfleikinn vann Hörður með þriggja marka mun og lokatölur urðu 38:28.

Óli Björn Vilhjálmsson, Noah Bardou og Jón Ómar Gíslason skoruðu fjögur mörk hver fyrir Hörð og alls voru það 10 Harðarmenn sem gerðu mark í leiknum. Markvörðurinn Rolandas Lebedevs átti góðan leik og varði 12 skot eða 25% þeirra sem hann fékk á sig.

Liði Harðar hefur ekki verið spáð góðu gengi í Olís deildinni. úrslit leiksins voru svo sem í samræmi við það, en engu að síður sýndi liðið seiglu eftir erfiða byrjun og náði að halda sjó eftir hana. Liðið á eftir að velgja öðrum liðum undir uggum og sækja sigra í deildinni. Það mun bæta sinn leik og lagfæra agnúa sem koma í ljós í fyrstu leikjunum. Það er alveg raunhæfur möguleiki að Hörður haldi sæti sínu í deild þeirra bestu. Þar mun heimavöllurinn á Ísafirði skipta miklu máli.

Mark í uppsiglingu í seinni hálfleik.
Sóknaráhlaup í undirbúningi.
Lið Harðar gengur til leiks.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA