Hálfdán: 6,3 km löng jarðgöng

Í skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri , sem gerð var fyrir Vegagerðina, um 13 jarðgangakosti a landsbyggðinni er fjallað um jarðgöng í gegnum Hálfdán, um 500 metra háan fjallveg milli Bíldudals og Tálknafjarðar. Gerð er úttekt á göngum sem eru 6,3 km löng og í töluverðri hæð, 180 metra hæð Tálknafjarðarmegin og í 210 metar hæð Bíldudalsmegin. Þau göng myndu stytta leiðina um 2,3 km og ferðatímann um 1,5 mínútu. Vegabætur á Vestfjörðum í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði munu draga úr umferð um Hálfdán um ca þriðjung en á móti munu jarðgöngin auka umferðina milli byggðarlaganna og auka öryggi hennar. Óhöppum mun fækka bæði án meiðsla og óhöppum með meiðslum. Lokunardögum mun fækka um tvo þriðju og verði vegurinn opinn 1,7 viðbótardag á ári í stað þess að vera lokaður.

Kostnaður við göngin er 15,7 milljarðarr króna með virðisaukaskatti. Reiknaður er greiðsluvilji umferðar miðið við metin áhrif af göngunum og telst skýrsluhöfundum til að meðalgreiðsluviljinn sé 277 kr/bíl. Í arðsemisútreikningum er miðað við 163 kr veggjald fyrir fólksbíl og þrefalt fyrir þunga bíla. Tekjur gætu orðið 17 m.kr. á fyrsta árinu. Til þess að núvirtur heildarábati verði 0 þurfa vextir að vera -1,64%.

Í könnun sem RHA gerði fyrir Vestfjarðastofu árið 2020 kom fram að 33% svarenda sögðust finna fyrir óþægindum eða kvíða þegar farið er um Hálfdán að vetrarlagi og 6% sögðust ekki fara um veginn að vetrarlagi af þessum sökum. Því telja skýrsluhöfundar það líklegt að göng undir Hálfdán muni hafa talsvert jákvæð áhrif á samskipti milli svæða. Mest mun umferð aukast milli Bíldudals og Tálknafjarðar eða um 35% og um 20% milli Bíldudals og Patreksfjarðar.

Önnur göng – Tálknafjörður í Dufansdal

Varpað er fram þeirri hugmynd að skoða göng milli Tálknafjarðar og Dufansdals í stað ganga um Hálfdán. Þau yrðu í Tálknafirði í 60 m h.y.s. yfir í Dufansdal í 80 m h.y.s. Lengd ganga um 6,3 km eins og undir Hálfdán. Þessi göng lengja leiðina milli Bíldudals og Tálknafjarðar um 7 km en milli Bíldudals og Patreksfjarðar um 4 km. Meginhluta ársins væri hægt að aka um Hálfdán eins og áður þannig að vegfarendur þyrftu einungis að fara lengri leið (en mun þægilegri) yfir
vetrartímann.

„Þessi göng stytta hins vegar leiðina verulega um Suðurfirði milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða og binda
þannig Vestfirði sem landsvæði betur saman. Styttingin er um 12 km til og frá Tálknafirði en 14-15 km til og frá Patreksfirði. Göngin hafa þann kost að þau geta legið 100 m neðar en göng undir Hálfdán. Slík göng myndu líklega hafa mjög jákvæð áhrif á tengingu svæða og byggðaþróun.“

DEILA