Gylfi Ólafsson: viljum fá fiskeldisgjöldin beint til sveitarfélaganna

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og fulltrúi sveitarfélagsins í starfshópi Fjórðungssambands Vestfirðinga um skiptingu fiskeldisgjalds sem eldisfyrirtæki greiða í Fiskeldissjóð, segir að eins og segir í ályktun Fjórðungsambands Vestfirðinga liggi fyrir hjá sveitarfélögunum á Vestfjörðum bæði samfélagssáttmáli milli þeirra um fiskeldi og almennur vilji þeirra til þess að fá fiskeldisgjöldin inn í A-hluta sveitarfélaganna.

„Ef það á að takast, les ég stöðuna þannig að sátt þurfi að vera á heimavelli áður en yfirvöld á landsvísu geta hugsað sér að hreyfa við málinu.“

„Lykilatriðið er því að ná sátt meðal sveitarfélaga, því núverandi fyrirkomulag er mjög óheppilegt“ segir Gylfi en gjaldið rennur í ríkissjóð og þaðan fer þriðjungur þess í Fiskeldisjóð sem úthlutar fénu til sveitarfélaga þar sem eldið er stundað samkvæmt umsóknum þeirra. Sveitarfélögin vilja fá féð beint án milligöngu Fiskeldissjóðs.

Gylfi var inntur eftir því hver væru sjónarmið Ísafjarðarbæjar til þess hvernig eigi að skipta tekjum Fiskeldissjóðs milli sveitarfélaganna.

„Hópurinn hefur ekki hist og það er því ótímabært að setja fram sjónarmið okkar í smáatriðum. Það er samt ljóst að það mun þurfa að ræða hvort það er magn fisks í sjó, landaður afli, burðarþol, áhættumat erfðablöndunar, íbúafjöldi eða eitthvað annað sem eigi að ráða útreikningum. Einnig þarf að ræða forsendur gjaldsins eins og það er skilgreint í lögum um fiskeldissjóð—að fénu sé ætlað að styrkja uppbyggingu innviða. Eins þarf að skoða fyrirsjáanleika og sveiflur í tekjunum og að ekki verði búið til of flókið kerfi. Einnig munum við þurfa að vera í samráði við fiskeldissveitarfélög á Austfjörðum.

Það er ágætt að árétta að hér er ekki til umræðu fjárhæðin sem lögð er á fiskeldisfyrirtækin, heldur að klippa út milliliðinn Fiskeldissjóð.“

„Það er margt sem þarf að ganga upp svo þetta komist í höfn en það er til mikils að vinna og ég hlakka til samstarfsins“ sagði Gylfi Ólafsson að lokum.

Í starfshópnum verða fulltrúar sex sveitarfélaga á Vestfjörðum, þar sem fiskeldi er stundað. Þeir eru Gylfi Ólafsson, Ísafjarðarbæ, Jón Páll Hreinsson, Bolungavík, Þórdís Sif Sigurðardóttir, Vesturbyggð, Þorgeir Pálsson, Strandabyggð, Lilja Magnúsdóttir, Tálknafirði og Bragi Þór Thoroddsen verður væntanlega fulltrúi Súðavíkur.

DEILA