Grams verslun Þingeyri: hver vill eiga húsið og gera það upp?

Ísafjarðarbær hyggst auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka yfir húsnæðið að Vallargötu 1 á Þingeyri, Gramsverslun, með þeim kvöðum að húsið verði gert upp.

Ísafjarðarbær eignaðist húsið árið 2004 á uppboði en það var áður þinglýst eign þrotabús Rauðsíðu ehf. Ástand þess er allt frekar slæmt segir í ástandsskýrslu Tækniþjónustu Vestfjarða frá 2021. Lausleg kostnaðaráætlun yfir þær viðgerðir og endurbætur sem nauðsnlegt er að gera á húsinu til að koma því í nothæft ástand er 71,2 mkr. Húsið er frá 1890 með gömlu byggingarlagi og dýrt að endurgera húsið í upprunalegt horf.  Leiða má að því líkum, segir í ástandsskýrslunni, að þessi kostnaður geti verið umtalsvert hærri m.t.t. þess að allir gluggar og frágangur er sérsmíði. Miðað við reynslu af kostnaði við að gera upp gömul hús í upprunalegri mynd kæmi ekki á óvart að kostnaðurinn yrði langt yfir umræddum 71,2 m.kr.

Málið var til umræðu á fundi bæjarráðs í nóvember 2021 og var þá  bæjarstjóra falið að yfirfara framtíðarsýn varðandi staðsetningu hússins og framtíðarnotkun hússins í samráði við hverfisráðið íbúasamtökin Átak á Þingeyri. Sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs lagði þá til að auglýst yrði eftir áhugasömum aðilum til þess að taka mannvirkið yfir, „fyrirkomulagið getur verið með því móti að selja fasteign/afhenda með kvöðum um viðhald og eða bjóða Ríkinu fasteignina til uppgerðar m.t.t. aðstöðu þjóðgarðsvarðar á Dynjanda.“

Á þeim 9 mánuðum sem liðnir eru virðist fátt hafa gerst annað en að fyrir liggur bréf Bjarneyjar Harðardóttur, Kjartans Ingvarssonar og Óttars Freys Gíslasonar, dagsett 3. desember 2021, þar sem óskað er eftir viðræðum við bæjarráð um framtíð Gramsverslunar á Þingeyri. 

Úr skýrslu Tækniþjónustu Vestfjarða.

DEILA