Flugslysaæfing á Ísafirði

Frá æfingunni í dag. Ljósmynd: Landsbjörg/Ólafur Jón

Björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum tóku þátt í flugslysaæfingu á Ísafjarðarflugvelli í dag. Æfð voru viðbrögð við ímynduðu flug­slysi. Fjöldi viðbragðsaðila tók þátt og voru þátttakendur á æfingunni í heildina rétt tæplega 200 manns.

Flug­slysaæf­ing­ar eru al­manna­varnaæf­ing­ar  sem haldnar eru á fjögurra ára fresti  á öllum áætlunarflugvellum. Mikið er lagt í undirbúning flugslysaæfinga til að gera æfingarnar sem raunverulegastar fyrir þátttakendur.

Flugslysaæfing­ar byggja á flug­slysa­áætl­un sem gerð hef­ur verið fyr­ir hvern flug­völl en það skipulag á einnig við í öðrum hópslysum. Æfingarnar eru því afar gagnlegar fyrir viðbragðskerfið og tryggja að vinnubrögð aðila séu samhæfð á öllum stjórnstigum. Stór hluti af flugslysaæfingum er rýnin eftir æfingu þar sem farið er yfir það sem vel var gert og lært af því sem betur hefði mátt fara.

Vond veðurspá var fyrir æfinguna en sem betur fer rættist úr spánni. Æfingin í dag gekk afar vel enda samstarf allra aðila með miklum ágætum segir í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu.

DEILA