Flateyri: leitað að efni í snjóflóðavarnir

Vegna nýrra snjóflóðavarna fyrir ofan Flateyri þarf mikið magn af efni. Um 280 þúsund rúmmetra er talið að þurfi til þess að gera keilur og fleira sem koma í kringum núverandi varnargarð.

Ráðgert er að grafa allt að 26 gryfjur á þremur stöðum og eru gryfjurnar að mestu staðsettar á þegar röskuðum svæðum. Tilgangur rannsóknanna er að finna hentugt efni í framkvæmdina. Sigríður Júlia Bryleifsdóttir, formaður Skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar segir að heppilegast væri að sem mest af efninu væri hægt að sækja sem næst nýju varnarmannvirkjunum.

Leitað verður ofan Hvilftar, í Klofningdal og á Selabólsurð. Grafnar verða 26 gryfjur til þes að kanna jarðveginn. Grafa grefur niður á um 5 m dýpi, eins þrönga holu og 40 tonna grafa ræður við: Um það bil 1,5 m breiða og 3-4 m langa.
Jarðfræðingur tekur myndir og kornastærðagreinir á staðnum. Gröfumaður lokar holnni þegar búið verður að greina efnið í gryfjunni.

Efnið þarf að vera gróft og sem næst framkvæmdasvæði. Efni úr Eyrarhrygg og Bæjrhrygg sem nýtt var í núverandi garða, var of fínefnaríkt til þess að mögulegt sé að vinna það í styrktar fyllingar, því er áhersla lögð á að kanna núverandi námusvæði og skeringasvæði í Klofningsdal, þar sem gróft grjót sést á yfirborði.

Fyrirhugaðar gryfjur í Klofningsdal.