Fjórðungsþing: hrun framundan í sauðfjárrækt

Frá Fjórðungsþingi á Ísafirði vorið 2022. Mynd: aðsend.

Á nýafstöðnu Fjórðungsþingi Vestfirðinga var ályktað um stöðuna í sauðfjárrækt og í byggðum sem styðjast við þá atvinnugrein. Vitnað er til sýrslu Byggðastofnunar frá því í vor þar sem dregin er upp afar dökk mynd af stöðu og framtíðarhorfum sauðfjárræktar á Íslandi.

Fjórðungsþingið ályktaði um stöðuna á þann veg að „Verði ekkert að gert er viðbúið að hrun verði í greininni með tilheyrandi byggðaröskun. Það væri þungt högg fyrir atvinnulíf á Ströndum, Reykhólahreppi og Barðaströnd, þar sem sauðfjárrækt er undirstaða atvinnulífs í dreifbýli sveitarfélaganna. Landbúnaður er byggðafestugrein á svæðinu og því ljóst að landshlutinn í heild sinni á mikið undir.“

Fjórðungsþingið vill að stofnaður verði stýrihópur með aðkomu sveitarfélaganna, landshlutasamtaka, ríkis og hagaðila til að hlúa sérstaklega að þessum svæðum. Verkefni hópsins væri að móta sértækar aðgerðir til að auka fjölbreytni í atvinnulífi svæðisins til að mæta því höggi sem sauðfjárræktin hefur orðið fyrir síðustu misseri. Með því móti er hægt að
bregðast við yfirvofandi flótta úr stétt sauðfjárbænda með tilheyrandi fólksfækkun og afleiddum áhrifum hennar á svæðinu.

DEILA