Fjórðungsþing: áhyggjur af ásætuvörnum

Frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga 2018. Steinn Kjartansson, Súðavík og Jón Örn Pálsson, Tálknafirði.

Lilja Magnúsdóttir, Tálknafjarðarhrep, pi Jón Árnason og Þórkatla Ólafsdóttir, Vesturbyggð flytja tillögu fyrir Fjórðungsþing Vestfirðinga á Patreksfirði um ásætuvarnir í sjókvíaeldi.

Leggja þau til að Fjórðungsþingið lýsi yfir áhyggjum sínum af notkun ásætuvarna sem innihalda koparoxíð á nótum í fiskeldiskvíum í fjörðum Vestfjarða. Vísa þau til umsögna Hafrannsóknarstofnunar og Náttúrufræðistofnunar sem telja nauðsynlegt að leggja mat á langtímaáhrif slíkra ásætuvarna og að hugsanlega geti orðið um sammögnunaráhrif frá sjókvíaeldi innan sama vatnshlots. Þá telji Skipulagsstofnun að af notkun slíkra ásætuvarna kunni að verða uppsöfnun kopars í botnseti sem geti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum.

Vilja flutningsmenn herða eftirlit með notkun þessara ásætuvarna og að vöktun og rannsóknir verði auknar verulega frá því sem nú er, til að tryggja að ekki verði um skaðleg áhrif af notkun þessara varna að ræða í lífríki Vestfjarða.

Bent er á að mikil þróun á sér stað í ásætuvörnum í botnmálningu báta og komin eru fram umhverfisvæn efni sem lofa góðu um slíkar varnir.

DEILA