Fiskræktarsjóður: styrkir laxastiga í Laugardalsá

Laxastiginn í Laugardalsá.

Stjórn Fiskræktarsjóðs styrkti veiðifélag Laugardalsár vegna endurbóta á laxastiga í Einarsfossi í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi um 1,7 m.kr. á þessu ári og um 2,5 m.kr. á síðasta ári.

Þá fékk Veiðifélag Selár í Steingrímsfirði styrk að fjárhæð 1.390.263 kr. til þess að bæta aðgengi að veiðistöðum og lagfæring á göngleiðum fiska í Selá í Steingrímsfirði.

Þá fékk Náttúrustofa Vestfjarða í fyrra 750.000 kr styrk til þess að gera grunnrannsókn á sjávarlúsasmiti villtra laxfiska í Jökulfjörðum. Beðið er svara frá Náttúrustofunni um niðurstöður rannsóknarinnar.

Hlutverk Fiskræktarsjóðs er að veita lán og styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. 

Stjórn sjóðsins skipa:

Hermann Brynjarsson, skipaður formaður án tilnefningar
Ólafur Þór Þórarinsson, tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga
Drífa Hjartardóttir, tilnefnd af Landssambandi veiðifélaga
Brynja Gunnarsdóttir, tilnefnd af Landssambandi stangaveiðifélaga

DEILA