Bolungavíkurhöfn: 2.171 tonn í ágúst

Óvenjumikill afli barst að landi í Bolungavík í ágústmánuði. Alls var landað 2.171 tonnum af bolfiski. Athyglisvert er að línuafli var aðeins um 400 tonn sem er mikil breyting frá því sem verið hefur um langt árabil. Langmest var veitt í dragnót eða um 1.100 tonn og togarinn Sirrý var með rúm 500 tonn í botnvörpu.

Fimm bátar voru á dragnótaveiðum. Bárður SH landaði 324 tonnum eftir 14 veiðiferðir, Þorlákur ÍS aflaði 292 tonn í 19 róðrum, Ásdís ÍS var með 289 tonn í 21 sjóferð, Finnbjörn ÍS 176 tonn eftir 11 róðra og Saxhamar SH 42 tonn.

Línubátarnir Jónína Brynja ÍS og Fríða Dagmar ÍS reru stíft í mánuðinum. Jónína ÍS fór 25 róðra og Fríða Dagmar ÍS náði 28 róðrum. Fyrrinefndi báturinn var með 170 tonn og Fríða Dagmar ÍS landaði 208 tonnum.

Um tugur báta var á handfæraveiðum og 19 sjóstangveiðibátar komu með tæp 16 tonn að landi.

DEILA