Bolungavík: aflagjald af laxi gæti numið 190 m.kr. á ári

Hið glæsilega nýja sláturhús Arctic Fish í Bolungavík.

Aflagjald af slátruðum laxi í Bolungavík mun skila um 190 m.kr. á ári miðað við full afköst sláturhússins segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík. Til samanburðar þá er í dag er aflagjaldið frá hefðbundnum veiðum um 90 m.kr. Því er um að ræða verulega aukningu í tekjum til Bolungarvíkurhafnar í framtíðinni.

Í samningi Bolungavíkurkaupstaðar við ArcticFish umforsendur aflagjalds kemur fram að grunnverð á eldisfiski til útreiknings á aflagjaldi er 32NOK og er sú fjárhæð vísitölutryggð. Miðað við gengi í dag er því „aflaverðmæti“ eldisfisks 430kr/kg. Jón Páll segir að til þess að finna þá fjárhæð hafi verið miðað við framleiðslukostnað á eldislaxi uppúr sjó og þannig reynt að meta verðmæti fisksins þegar hann kemur í höfnina, á hliðstæðan hátt og verðmæti annars fisk sem kemur til löndunar frá fiskveiðiflotanum. „Það var sanngirnismál, að okkar mati, að aflagjald af fiski úr fiskeldi væri metið á hliðstæðan hátt og annar fiskur eins og t.d. bolfiskur.“ Aflagjaldið er skv. gjaldskrá hafnarinnar á hverjum tíma með 50% afslætti eða eða 0,78% af heildaraflaverðmæti.

Í samninginum er fjallað um tímabundin afslátt 0,70 kr/kg. Jón Páll segir að hann sé til þess að koma til móts við Arctic Fish vegna framkvæmda við hafnarmannvirki í Bolungarvíkurhöfn, sem fyrirtækið framkvæmdir á sinn kostnað. Um er að ræða t.d. sjólagnir, breytingar á brimvarnargarði og löndunarbúnað. Verkefni sem bæta hafnaraðstæður í Bolungarvíkurhöfn, og eru að öllu leyti greiddar og framkvæmdar af Arctic Fish. Hlutur Bolungarvíkurhafnar í þessum framkvæmdur kemur fram með áðurnefndum afslætti. Afslátturinn gildir út árið 2025 og er veittur hámarki fyrir 70.000 tonnum samtals.

Aflagjöld eru innheimt skv. heimild í hafnalögum og skulu ásamt skipagjöldum og vörugjöldum standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, dýpkanir og legu í höfn, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka, hafnarbáta og hafnsögu þar sem það á við.

DEILA