Bolungavík: 90 m.kr. í eitt barnaverndarúrræði

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Bolungavík hefur samþykkt 90 m.kr. viðauka við fjárhagsáætlun ársins til þess að mæta kostnaði við barnaverndarúrræði. Fyrirsjáanlegt er að kostnaðurinn á næsta ári verði 100 m.kr. Um er að ræða úrræði til þess vernda öryggi einstaklings sem er yngri en 18 ára og fellur undir barnavernd.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að um sé að ræða íþyngjandi vistun á barni. Ekki séu til úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda og sveitarfélagið neyðist til þess að leita til einkaaðila á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að bæjarfélagið muni standa við skuldbindingar sínar, en ástandið sé ósjálfbært. Ekkert sveitarfélag geti sett 15% af tekjum sínum í eitt úrræði. Jón Páll kallar eftir því að ríkisvaldið komi að málinu.

Ekki var einhugur um málið í bæjarstjórninni. Þrír bæjarfulltrúar minnihlutans sátu hjá við afgreiðsluna. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir, bæjarfulltrúi segir að sveitarfélaginu beri að útvega þjónustuna en hún vill að ríkisvaldið geri því það kleift.

Kristján Jón Guðmundsson, bæjarfulltrúi sagði í samtali við Bæjarins besta að hann teldi ekki fullreynt að greiðslan hvíli einvörðungu á sveitarfélaginu og því væri ekki tímabært að samþykkja fjárhagsviðaukann. Hann bendir á að kostnaðurin sé 250 þús kr á sólarhring og svo virðist að þegar einstaklingurinn verður 18 ára færist ábyrgðin yfir á ríkið. „Þessi fjárhæð samsvarar kostnaði Bolungavíkur við rekstur leikskólans í hálft ár.“ Han segist líta á málið sem geðheilbrigðismál fremur en barnaverndarmál.

DEILA