Björgunarbáturinn Kobbi Láka hefur ekki fengist skráður

Kobbi Láka í Bolungarvíkurhöfn.

Björgunarsveitin Ernir og slysavarnardeildin Hjálp festu í sumar kaup á nýjum bát í stað þess sem eyðilagðist fyrr á árinu. Hinn nýji Kobbi Láka kom til landsins um miðjan júlí og eftir tvo mánuði er staðan þannig að báturinn hefur ekki fengist skráður á íslenska skipaskrá.

Það kemur á óvart þar sem báturinn hefur verið við leit og björgun óslitið í Noregi síðan 2002 með miklum árangri.

Stjórnir félaganna hafa því sent frá sér ítarlega skýringu á framvindu mála. Kröfurnar sem innlendar stofnanir gera fyrir skráningu bátsins eru mun meiri en gert er í Noregi og veldur það töfunum. Segja stjórnirnar að þörf sé á endurskoðun stofnanakerfisins og reglugerðar um björgunarbáta. Vonast stjórnirnar til þess að innan skamms fáist skráningin samþykkt.

„Þó svo að mögulegt hefði verið að nota bátinn á norskri skráningu til loka árs 2024 þá fórum við þá eðlilegu leið að afskrá hann í Noregi til að skrá Kobba Láka með heimahöfn í Bolungarvík. Því miður þá er ljóst að sá kröfumunur sem er til björgunarbáta til notkunar á úthafi í Noregi og á Íslandi gerir það að verkum að ekki er enn hægt að taka Kobba til notkunar. Þrátt fyrir að starfsmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar og skipaverkfræðingar ásamt okkur hafi lagt ómældan tíma í að reyna að skaffa þau aukagögn sem gerð var krafa um eftir að báturinn var kominn til landsins. Þó svo að nýleg stöðuleikagögn síðan 2017 sýni mjög góðann stöðuleika, telst það ekki nægjanlegt til skráningar hér. Hluti af því vandamáli er að þó að fjöldinn allur af björgunarbátum við Ísland sé ekki sjálfréttandi (sem Kobbi eldri var ekki heldur) þá þarf núna að sækja sérstaklega um undanþágu hjá Innviðaráðuneyti frá reglum um sjálfrétti og stöðugleika sem tefur skráningu enn frekar. Þess má geta að sambærileg krafa til sjálfréttingar er ekki gerð til björgunarbáta á hinum Norðurlöndunum, og ekki í Noregi þar sem aðstæður til sjóferða eru svipaðar og hér. Ljóst er að mikil þörf er á að stofnanakerfið sem stendur að skráningu skipa á Íslandi þarfnast endurskoðunar sem og reglugerð um björgunarbáta gerða út frá landi (nr. 1120/2007). Staðan er sú að í góðum samböndum við systursamtök björgunarsveita víða í Evrópu eiga sveitir eins og okkar oft tækifæri á góðum notuðum bátum eins og nýja Kobba Láka. Það er samt ótrúlegt að vera í þeirri stöðu að geta ekki skráð þessa frábæru björg sem þið hafið mörg hver lagt styrki í, með einstökum styrkjum, neyðarkalli, flugeldakaupum eða öðru. Við trúum því þó að fljótlega sjái menn að sér og heimili okkur að skrá bátinn á Íslenska skipaskrá, enda eins og áður segir ekkert að vanbúnaði að hafa hann á öðrum skipaskrám. Við biðjumst um leið afsökunar á þessu til sjófarenda á svæðinu, enda er það innileg von okkar að við eigum búnað til að koma til aðstoðar þegar að reynir á. Sérstaklega verður látið vita þegar að Kobbi Láka nýi kemst af stað í rekstur.“

DEILA