Mennta- og barnamálaráðherra: Tillögur fyrir 1. nóv um kostnaðarskiptingu

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Mennta- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason hefur skipað stýrihóp um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda undir, formennsku Haraldar L. Haraldssonar, fyrrv. bæjarstjóra á Ísafirði.

Ráðherra var inntur eftir því hvernig ráðuneytið hyggðist bregðast við miklum kostnaði sem fellur á Bolungavíkurkaupstað vegna íþyngjandi barnaverndarúrræðis fyrir einn einstakling. Sveitarfélagið verður að semja við einkaaðila á höfuðborgarsvæðinu um þjónustuna. Nemur kostnaðurinn um 90 m.kr. á þessu ári og um 100 m.kr. á því næsta.

Í svari ráðuneytisins segir að hlutverk hópsins verði að kortleggja og greina þjónustuþörf barna með fjölþættan vanda og koma með tillögur um viðeigandi úrræði og skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga. Til starfa í hópnum hafa verið tilnefndir fulltrúar heilbrigðisráðuneytis, innviðaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Barna- og fjölskyldustofu.

Stýrihópurinn skal skila tillögum til mennta- og barnamálaráðherra ekki síðar en 1. nóvember 2022 og er vinna stýrihópsins liður í yfirstandandi aðgerðum stjórnvalda til að samþætta og bæta þjónustu í þágu farsældar barna, segir í svarinu.

Ekki fengust svör við því hver greiðir kostnaðinn við úrræðið þegar í hlut á einstaklingur 18 ára og eldri, en úrræði sem byggjast á barnaverndarlögum miðast við einstaklinga yngri en 18 ára.

DEILA