Alþingi: vilja kaupa nýja Breiðafjarðarferju

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Sjö alþingismenn hafa flutt þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að innviðaráðherra að láta kaupa nýja ferju sem verði notuð í reglulegum ferjusiglingum á Breiðafirði. Þar til ný ferja verður tekin í notkun skuli nýta skipið Herjólf III, skráningarnúmer 2164, í reglulegum ferjusiglingum á Breiðafirði. Hefja skal framkvæmdir á hafnarmannvirkjum á ferjuleiðinni eins fljótt og auðið er til að tryggja að Herjólfur III geti tekið við ferjusiglingum sem fyrst segir í tillögunni.

Eyjólfur Ármannsson (F) þingmaður Norðvesturkjördæmis er fyrsti flutningmaður en með honum eru fimm þingmenn Flokks fólksins og Ásmundur Friðriksson (D) þingmaður Suðurkjördæmis.

Eyjólfur Ármannsson.

Tillagan var fyrst lögð fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Allmargar umsagnir bárust þá um tillöguna og voru almennt jákvæðar.

Fram kemur í greinargerð sem fylgir með tillögunni að frá árinu 1924 hafi Breiðafjarðarferjan Baldur og forverar hennar með sama nafni siglt reglulegar ferjusiglingar um Breiðafjörð. „Ferjan gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngum á milli Snæfellsness og Vestfjarða og fyrir Breiðafjörð en Baldur er afar mikilvægur fyrir byggð í Breiðafirði, í Flatey og öðrum eyjum. Hann myndar auk þess mikilvæg tengsl milli byggða á Snæfellsnesi, Breiðafirði og Vestfjörðum sem íbúar njóta góðs af.“

 Fjórðungssamband Vestfjarða ályktaði á Fjórðungsþingi hinn 23. október 2021 að nauðsynlegt væri að endurnýja Baldur. Í ályktuninni kemur fram að ferjan sé grunnstoð í samgöngum á Vestfjörðum nú þegar séð er fram á heilsárssamgöngur milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða með framkvæmdum á Dynjandisheiði. Í ályktuninni er lagt til að strax verði gerðar breytingar á hafnarmannvirkjum svo að hægt verði að nota gamla Herjólf í ferjusiglingar þar til ný ferja kemur til landsins. Í ályktuninni kemur einnig fram að nauðsynlegt sé að ljúka við gerð viðbragðsáætlunar vegna ferjuslysa á Breiðafirði. 3 Stykkishólmur hefur einnig ályktað um mikilvægi þess að endurnýja Breiðafjarðarferjuna sem fyrst.

DEILA