Alþingi: vilja jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar

Frá Súðavíkurhlíð í sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þrettán alþingismenn úr þremur flokkum hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Fyrsti flutningmaður er Helga Vala Helgadóttir (S) og auk hennar eru 5 þingmenn Samfylkingar, allir 6 þingenn Flokks fólksins og einn, Bjarni Jónsson, frá Vinstri grænum.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að skapa svigrúm fyrir gerð Súðavíkurganga á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi í núgildandi samgönguáætlun 2020– 2034. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvinduna fyrir árslok 2023.“

Þingsályktunartillaga sama efnis var lögð fram á síðasta vetri. Áður hafði þrisvar verið lögð fram tillaga um jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir að lagt er til að innviðaráðherra skapi svigrúm til þess að Súðavíkurgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi verði skilgreind sem verkleg framkvæmd á samgönguáætlun 2020–2034 og að þegar verði hafnar ítarlegar rannsóknir og undirbúningur að gerð jarðganganna.

Þá segir að gerð Súðavíkurganga er afar brýn út frá byggðasjónarmiðum en ekki síður út frá öryggissjónarmiðum. Á Súðavíkurhlíð eru skilgreindir 22 snjóflóðafarvegir og eru fjölmörg dæmi um snjóflóð og grjóthrun í hlíðinni.

„Norðanverðir Vestfirðir eru eitt atvinnu- og búsetusvæði. Samkvæmt vinnusóknarkönnun sem Byggðastofnun lét gera árið 2017 sækja tæp 30% vinnandi fólks í Súðavík vinnu til Ísafjarðar og þetta hlutfall fer stöðugt vaxandi. Þónokkur fyrirtæki eru með starfsemi í Súðavík og á öðrum þéttbýliskjörnum á norðanverðum Vestfjörðum. Íbúar Súðavíkur sækja flesta sína grunnþjónustu, til að mynda heilbrigðisþjónustu, til Ísafjarðar.“

DEILA