Vinstri grænir: óviðunandi þjónusta í flugsamgöngum

Frá flokksráðsfundi Vg, Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna, sem haldinn var á Ísafirði um helgina ályktaði um öryggi í flugsamgöngum.

Fundurinn telur mikilvægt að öryggi í flugsamgöngum, sem teljast til almenningssamgangna fyrir þá sem búa á landsbyggðinni, verði tryggt en núverandi þjónusta er með öllu óviðunandi segir í ályktuninni. „Þær aðstæður sem íbúar á landsbyggðinni hafa þurft að búa við í flugsamgöngum undanfarin misseri hafa meðal annars haft alvarleg áhrif á atvinnutækifæri, læknisheimsóknir og fjárhag einstaklinga. Röskun á áætlunarflugi er mikið í þessari mikilvægu grunnþjónustu sem íbúar á landsbyggðinni reiða sig á og úr því þarf að bæta hið fyrsta.“

Hækka veiðigjald og auka kvótann í félagslega hlutanum

Í stjórnmálaályktun fundarins er lýst yfir stuðningi við hugmyndir um hækkun veiðigjalda, þar sem sérstaklega er tekið tillit til smærri útgerða, endurskoðun laga sem lúta að gagnsæi um raunverulega eigendur sjávarútvegsfyrirtækja og að sporna gegn samþjöppun í sjávarútvegi. Í ályktuninni segir að stórútgerðin hafi haldið áfram að skila hagnaði í gegnum heimsfaraldur og innrás Rússa í Úkraínu og eigi að leggja meira til samfélagsins. Þá lýsir fundurinn yfir stuðningi við áform um að stækka félagslega hluta fiskveiðistjórnunar-kerfisins. Full þörf er á bættri fjármögnun hafrannsókna sem þurfa að vera mun víðtækari á tímum þar sem vistkerfi sjávar er í hættu vegna loftslagsbreytinga, súrnunar sjávar og plastmengunar.

DEILA