Vinstri græn með flokksráðsfund á Ísafirði um helgina

Katrín Jakobsdóttir.

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 27.-28. ágúst.  Flokksráðsfundir eru haldnir tvisvar á ári og eru æðsta vald hreyfingarinnar á milli landsfunda. Í flokksráði sitja um hundrað manns, en tæplega 80 félagar eru skráðir á fundinn núna. Þetta er fyrsti fundur hreyfingarinnar á Vestfjörðum.

Tveir viðburðir verða opnir og eru Vestfirðingar og öll önnur sem áhuga hafa hvött til þess að kíkja við.

Annars vegar ræður formanns og varaformanns sem fara fram frá 14-15 á laugardeginum og síðan pallborð með heimamönnunum Eiríki Erni Norðdahl, rithöfundi, Braga Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, Dóru Hlín Gísladóttur, yfirmanni vöruþróunar hjá Kerecis auk Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra. Pallborðið mun fara fram á sunnudeginum kl 11.

Dagskrána má finna á flokksradsfundur.vg.is en þar verða líka birtar þær tillögur og ályktanir sem fyrir fundinum liggja. Einnig verður streymt af Facebook síðu hreyfingarinnar og á heimasíðu fundarins, bæði ræðunum og pallborðinu.

DEILA