Vinnueftirlitið fækkar störfum á Ísafirði

Starfsmönnum Vinnueftirlitsins á Ísafirði fækkar um einn nú í haust. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta verður dregið úr þjónustu frá Ísafirði þannig að Ströndum og sunnanverðum Vestfjörðum verður sinnt frá Akranesi og Norðurlandi vestra.

Starfsemi Vinnueftirlitsins er dreifð á átta starfsstöðvar um allt land. Afgreiðslur eru opnar á þremur stöðum; í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum segir á vefsíðu stofnunarinnar.

Leitað var eftir staðfestingu Vinnueftirlitsins á þessari breytingu og í svörum upplýsingafulltrúa stofnunarinnar segir að landið sé eitt atvinnusvæði og að Vinnueftirlitið fylgi „þeirri stefnu stjórnvalda að bjóða upp á störf án staðsetningar þegar þess er kostur, og höfum við nokkur nýleg dæmi þess innan stofnunarinnar. Eins reynir stofnunin eftir fremsta megni að koma til móts við óskir starfsfólks svo sem ef það óskar eftir að flytja sig á milli landsvæða en við slíka ákvarðanatöku er alltaf horft til mikilvægi þess að halda uppi góðu þjónustustigi, að stofnunin starfi innan fjárheimilda og að starfsemin sé skipulögð með hagkvæmni að leiðarljósi.

Þær breytingar sem eru að verða á starfsstöð okkar á Ísafirði má rekja til breytinga á högum starfsfólks sem stofnunin vill koma til móts við enda er það mat okkar að við getum áfram veitt góða þjónustu á svæðinu. Þess ber að geta Vinnueftirlitið er ekki að fækka starfsfólki í vinnuvélaskoðunum. Við munum því sem endranær sinna þjónustu og eftirliti á Vestfjörðum, bæði frá starfsstöð okkar á Ísafirði sem og öðrum starfsstöðvum okkar, og verður þess gætt að þjónustan verði sambærileg og er á öðrum landssvæðum, svo sem hvað varðar hlutfall skoðana almennt sem og eftirlit með vinnuvélum meðan á framkvæmdum stendur í stærri verkefnum.“

DEILA