Vatnsfjörður: leiðaval óklárt

Mynd úr matsskýrslu Vegagerðarinnar.

Ekki liggur fyrir hvaða tillaga verður valin fyrir nýjan veg um Vatnsfjörð og við Flókalund og Pennudal. Settar eru fram sex leiðir í matsskýrslu Vegagerðarinnar frá 2020. Þrjár þeirra gera ráð fyrir vegi fyrir Vatnsfjörðinn og þrjár þvera fjörðinn. Þá gera flestar þeirra ráð fyrir nýjum og breyttum gatnamótum við Flókalund þar sem þau eru færð vestur fyrir Pennuána. Beðið er niðurstöðu um leiðaval. Það er Vesturbyggð sem mun gera nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins þegar ákvörðun um leiðaval liggur fyrir. Mannvirkjagerð og jarðrask og hvers konar breytingar á landi innan friðlýsts svæðis Vatnsfjarðar er háð leyfi Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun og Vesturbyggð þurfa að taka sameiginlega ákvörðun um leiðarval á áfanganum segir í matsskýrslunni.

Vegagerðin telur að umferðaröryggi á veglínu A3 sé of lítið og hún komi því ekki til greina sem valkostur. Veglínur F og F3 séu öruggastar. Þá telur Vegagerðin mögulegt að endurleggja Vestfjarðaveg með veglínu A1 án þess að raska vistkerfum sem njóta verndar.

Umhverfisstofnun leggur til að Vestfjarðavegur verði lagður eftir veglínu A1 fyrir Vatnsfjörðinn. Ísafjarðarbær telur að þverun Vatnsfjarðar sé ákjósanlegasti kosturinn. Náttúrurfræðistofnun Íslands og Breiðafjarðarnefnd leggjast gegn þverun Vatnsfjarðar.

Sigurþór Guðmundsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni segir að tillaga Vegagerðarinnar sé að færa gatnamótin vestur yfir ána. Hann segir núverandi vegarstæði vera ómögulegt vegarstæði út frá öryggissjónarmiðum. Hvað sem lýði mismunandi sjónarmiðum um þverun Vatnsfjarðar eða endurbyggingu vegar fyrir fjörðinn þá þurfi að úrbætur á þessum svæði.

DEILA