Uppskrift vikunnar: plokkfiskur

Þekki fáa sem borða ekki plokkfisk, hvað þá þegar hann er settur í sparifötin.
Persónulega finnst mér best að nota meira smjör enda gæti ég lifað á smjöri og gouda ost en auðvitað fer það eftir smekk hvers og eins.

Verði ykkur yndislega vel að góðu.

Innihald:

  • 800 g hvítur fiskur (ýsa eða þorskur)
  • 2 laukar
  • 160 g smjör
  • 2 pakkar af bernaise sósu (t.d. knorr)
  • 6 dl mjólk
  • 650 g kartöflur
  • Rifinn ostur

Plokkfiskur er góður gratíneraður og því skal byrja á því að hita ofninn í 220°C. Sjóða skal bæði fisk og kartöflur. Til að flýta fyrir suðunni á kartöflunum er ágætt að afhýða þær og brytja niður áður en þær eru soðnar. Þá er nóg að sjóða þær í 10-15 mín, svipað og fiskinn. Þegar suðunni er lokið er vatninu helt af bæði fisk og kartöflum. Laukurinn er skorinn niður og smjörið brætt í potti. Þegar smjörið er bráðið þá er lauknum bætt útí og leyft að sjóða í smjörinu við vægan hita þar til hann er búinn að mýkjast vel. Passið að hafa ekki of háan hita á smjörinu. Þegar laukurinn er til þá er bernaise duftinu úr pökkunum bætt við ásamt mjólkinni og hrært vel. Leyft að malla í um 2 mín. Þá er fisk og kartöflum bætt við og hrært vel saman. Plokkfiskurinn er að lokum settur í eldfast mót og ostur yfir.
Skella inní ofn og leyfa ostinum að bráðna og taka á sig gullinn lit. Þá er plokkfiskurinn til og ekkert eftir nema að borða hann með bros á vör með yndislegu rúgbrauði auðvitað.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA