Tvíbreið Breiðadalsgöng kosta 8 milljarða króna

Kostnaður við gerð nýrra tvíbreiðra jarðganga meðfram núverandi Breiðadalslegg Vestfjarðaganga er talinn vera 8 milljarðar króna án virðisaukaskatts að því er fram kemur í skýrslu Vegagerðarinnar um jarðgangakosti sem nýlega var birt.

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) var fengin til að skoða 8 jarðgangakosti á landsbyggðinni með tilliti til arðsemi, umferðaröryggis, tengingar atvinnu -og búsetusvæða ásamt byggðaþróun.

Ársdagsumferð um Breiðadalslegginn var 521 bíll á dag árið 2019. Gert var ráð fyrir að hún myndi hafa verið 833 bílar ef lokið væri þeim vegaframkvæmdum í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði sem eru í gangi eða að hefjast. Þá verður vesturleiðin frá Ísafirði til höfuðborgarsvæðisins um 57 km styttri en Djúpvegur.

Ef nýr tvíbreiður Breiðadalsleggur verður gerður er hægt að láta nýjan munna koma neðar út í Breiðadal til þess að minnka langhalla á vegi upp að gangamunna. Það mun þó þýða lengingu á göngunum. Að koma út í 140 m h.y.s. í stað 180 eins og nú lengir göngin um 400m.

Kostnaður við gerð tvíbreiðra ganga í stað Breiðadalslegg er talin vera 8 milljarðar króna án virðisaukaskatts, en verði ákveðið að breikka núverandi einbreið göng yrði kostnaðurinn lægri, en ekki kemur fram hve miklu munar. Miðað er við að framkvæmdatími verði 2,5 ár. Óhappatíðni er talin munu lækka og ferðatími gegnum gögnin muni styttast.

Áætlað er út frá niðurstöðum síðustu tiltæku ára í umferðaróhöppum, 2017-2020, að óhappatíðni á þessari leið sé 1,90 og þar af 1,71 eingöngu eignatjón. Þetta breytist í óhappatíðnina 0,6 og þar af 0,45 eingöngu eignatjón. Þessar forsendur sem og forsendur um umferð gefa að á fyrsta ári 2025 ætti óhöppum að fækka úr 2,33 niður í 0,74 sem er fækkun um 1,59 óhöpp. Þar af fækki óhöppum með einungis eignatjóni úr 2,10 niður í 0,55 og slysum fækki úr 0,23 niður í 0,18.

Ekki er raunhæft að taka veggjald í nýjum eða endurnýjuðum göngum sem væri í samræmi við styttan ferðatíma. Slíkt gjald er svo lágt að varla svarar kostnaði að innheimta það.

Ætlað er að breikkun Breiðadalsleggs ganga undir Breiðadals- og Botnsheiði muni hafa einhver jákvæð áhrif á tengingu svæða, bæði milli staða á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum og milli norðanverðra Vestfjarða og megin vegakerfis landsins.

Ef ný göng verða gerð við hliðina á eldri einbreiðum göngum má velta fyrir sér hvernig hægt er að nýta gömlu göngin. segir í skýrslunni. Geta þau verið varaleið í neyðartilvikum? Geta þau nýst sem flóttagöng? Þá næðu flóttagöng inn í mið göngin undir Breiðadals- og Botnsheiði. Geta þau nýst til loftræstingar, jafnvel á framkvæmdatíma nýrra ganga? Gömlu göngin gætu hentað vel fyrir ýmsar lagnir ef hentug veituleið hefur ekki verið gerð fyrir fram í nýju göngunum.

Gert er ráð fyrir að þungaumferð verði 8% af allri umferð og meðalgreiðsluvilji á bíl 83 kr. vegna tímasparnaðar. Útreikningar sýna að til þess að núvirtur heildarábati verði 0 þurfa innri vextir að ver neikvæðir um 1,49%. Metin arðsemi er því neikvæð sem því nemur.

DEILA