Tálknafjörður: ekki jafnt aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu

Tálknafjörður.

Sveitarstjórn Tálknafjarðar ályktaði um alvarlega stöðu á heilsugæslustöðvum á landbyggðinni þar sem erfiðlega gengur að manna stöður. Var það af því tilefni að Vestmannaeyjabæ gerði bókun um málið í byrjun júlí og sendi til annarra sveitarfélaga.

Í bókun Tálknafjarðar segir að jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé ekki raunin fyrir fólk á landsbyggðinni. Nauðsynlegt sé að bæta aðflugsljósin á Bíldudalsflugvelli vegna sjúkraflugs.

„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tekur heilshugar undir með bæjarstjórn Vestmannaeyja um að jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu á að vera grundvallaratriði í samfélagsuppbyggingunni. Það sé hins vegar ekki raunin fyrir fólk á landsbyggðinni í dag. Heilsugæslan á landsbyggðinni er undirmönnuð og aðgengi íbúa að grunnheilbrigðisþjónustu er skert. Á sunnanverðum Vestfjörðum skiptir öruggt sjúkraflug öllu máli fyrir íbúa svæðisins enda vegakerfið ekki til þess fallið að tryggja örugga sjúkraflutninga. Nauðsynlegt er að bæta aðflugsljós á Bíldudalsflugvelli til að tryggja að hægt sé að nota flugvöllinn við sem flestar aðstæður.“

DEILA