Suðureyri: vatnsskortur- grunur um leka

Suðureyri. Mynd: Ísafjarðarbær.

Flytja hefur þurft vatn til Suðureyrar frá Ísafirði vegna vatnsskorts. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta eru allt að 10 ferðir á dag farnar með vatn á vatnstankinn í þorpinu.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri staðfestir vatnsflutningana. „Það er vatnsskortur á Suðureyri og til að geta tryggt afhendingu vatns til íbúa og fyrirtækja þá höfum þurft keyra vatni frá Ísafirði. Vonandi er þessi staða til bráðabirgða á meðan unnið er að finna mögulegan leka á lögninni, en unnið er hörðum höndum að málinu. Það er enginn óskastaða að keyra vatni milli fjarða. Það má geta  þess að unnið er að stækkun vatnslagnar úr Staðardal.“

Jóhann Birkir Helgason, starfsmaður Verkís segir að vatnsnoktunin hafi hingað til verið svipuð og geta vatnsveitunnar en í júní hafi orðið breyting á og noktunin hafi mælst meiri en innrennslið. Hann telur greinilega vera um leka að ræða.

Starfsmenn Ísafjarðarbæjar nýttu hlustunartæki við lekaleit með aðstoð verktaka og Orkubúi Vestfjarða í júlí. Þá voru fjórar holur grafnar í Eyrargötu en enginn leki fannst.

Í síðustu viku var sérfræðingur frá Verkís fenginn til að þrýstiprófa lögnina á svæði sem afmarkast af Eyrargötu, Skólagötu, Stefnisgötu og Rómarstíg. Ekki fannst leki í lögninni við þessa aðgerð en á svæðinu greindist samt sem áður of mikið útflæði.

Þriðjudaginn 16. ágúst var gerð prófun á innflæði og útflæði með því að skrúfa fyrir alla kranana í þorpinu og opna svo fyrir eina götu aftur í einu. Útflæði mældist eðlilegt í öllum götum nema á fyrrnefndu svæði. Næsta skref er að setja krana á lagnirnar í Eyrargötu, Stefnisgötu og Skólagötu til þess að afmarka frekar svæðið sem mögulegur leki getur verið á. Þetta getur tekið tíma þar sem kranarnir þurfa að koma að sunnan og svo þarf að grafa til að setja kranana á.

Jóhann vonast til að þetta ástand lagist þegar ný vatnslögn, sem verið er að leggja úr Staðardal að þorpinu, verður tengd við vatnstankinn þar sem flutningsgetan eykst heldur með henni. Hann segir að það geti reynst erfitt fyrir starfsmenn bæjarins að finna lekann.

Í tilkynningu Ísafjarðarbæjars segir að þangað til komist verður fyrir lekann getur áfram þurft að loka fyrir vatn í ákveðnum götum á Suðureyri.

Unnið er að lagningu nýrrar vatnslagnar og auk nýrrar lagnar úr Staðardal þarf að leggja nýja lögn þaðan að vatnsbóli annaðhvort í Vatnsdal eða Sunndal sem geti flutt meira vatnsmagn að þorpinu. Er áformað að þeim framkvæmdum ljúki á næsta ári. Fiskeldissjóður hefur veitt 20 m.kr. styrk til framkvæmdanna.

DEILA