Skaginn 3X gerir stóran samning við BlueWild

Skaginn 3X hefur undirritað samning við Bluewild í Noregi um að útvega heildarvinnslulausn um borð í nýjan togara félagsins. Hönnun hans er byggð á því sem framleiðendurnir hafa kallað ECOFIVE hugmyndafræðina. Sjálfbærni, hagkvæmni og gæði skipta þar höfuðmáli. Ný skrúfutækni, ný meðhöndlun á trollum, vistvæn dæling á aflanum og nýstárleg vinnslutækni munu gjörbylta framlegð og vistspori togarans.   

 Tímamótasamningur
Heildarverðmæti samningsins er rúmlega einn milljarður íslenskra króna. „Samningurinn markar tímamót fyrir okkur,“ segir Ragnar A. Guðmundsson, yfirmaður sölumála Skaginn 3X fyrir Skandinavíu og Evrópu. En Ragnar hefur leitt verkefnið Skaginn 3X megin frá upphafi þess. „Við höfum unnið náið með Bluewild teyminu síðastliðin tvö ár. Ótal fundir og tilraunir skiluðu þessum árangri og við höfum þróað nýja og spennandi kerfislausn sem samrýmist virkilega vel stefnu þeirra.“

Reynir Ver Jónsson, hönnuður hjá Skaginn 3X, Tore Roaldsnes, CEO hjá BlueWild og Ragnar A. Guðmundsson, sölustjóri hjá Skaginn 3X.

Nýsköpun sem tilnefnd er til verðlauna

Sjálfbærni er kjarninn í ECOFIVE nálguninni sem Bluewild og samstarfsaðilar þeirra hafa þróað. Hún er hugsuð sem leið til að framleiða vörur í hæsta gæðaflokki með sem minnstum orkukostnaði. Verkefnið er tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna Nor-Fishing Foundation 2022.

„Það er ótrúlegt tækifæri að vera valinn til að afhenda lausn í nýsköpunarverkefni eins og ECOFIVE,“ segir Ragnar. „ Kerfislausn okkar fellur ótrúlega vel að kröfum kúnnans um sjálfbærar veiðar, hámarks nýtingu og aukið verðmæti bæði afurða og aukaafurða.“

Nýjar leiðir til sjálfbærni

Þegar aflinn kemur um borð er hann fluttur beint í vatnsfyllta birgðatanka sem eru fyrir neðan sjólínu. Þar er hann geymdur lifandi áður en hann er fluttur í verksmiðjuna. Aflinn er færður á efra verksmiðjudekkið með yfirþrýstingslosun sem kemur í veg fyrir hið dæmigerða tjón sem getur orðið við notkun annars konar dælingar. Vinnslukerfi Skaginn 3X tekur þar við og mun vinna fiskinn í flök og bita. Einnig verður heildstæð reækjulína um borð sem mun vinna soðna  lausfrysta rækju sem og frysta iðnaðarrækju til frekari framleiðslu í landi.

Hámarksnýting allra afurða

„Við leggjum áherslu á gæði og hámarks afurðanýtingu,“ útskýrir Ragnar. „Þetta þýðir að hver og einn fiskur fær toppmeðhöndlun í öllu ferlinu, allt frá lifandi fiski til frystar afurðar. Auk þess er kerfið hannað til að nýta allar aukaafurðir til hin ýtrasta til að hámarka verðmæti þeirra.“

Samvinna er lykillinn að árangri
Skipið og öll kerfi þess eru hönnuð og smíðuð af teymi sérfræðinga frá Westcon skipasmíðastöðinni, Ulstein Design & Solutions AS, CFlow Systems, PTG og nú Skaginn 3X. „Við erum stolt af því að viðskiptavinurinn hefur valið okkur með í þetta verkefni og afar stolt af því að vera hluti af þessum hópi,“ segir Ragnar. „Reynsla okkar af íslenskum og alþjóðlegum fiskiðnaði hefur gert okkur kleift að byggja upp teymi á heimsmælikvarða. Okkar teymi leggur ítarlega vinnsluþekkingu, nýsköpunarhugsun og tæknilega sérfræðiþekkingu til þessa verkefnis.“

BlueWild teymið, frá vinstri: Frank R. Myklebust, COO BlueWild. Helge Kittilsen, CCO BlueWild, Ragnar A. Guðmundsson, Skaginn 3X, Tore Roaldsnes, CEO BlueWild, og Gunnar Hessen, verkefnastjóri BlueWild

DEILA