Sex fyrirtæki til liðs við Háskólasetur Vestfjarða

Háskólasetur Vestfjarða er staðsett í Vestrahúsinu.

Í vor gerðust sex fyrirtæki á Vestfjörðum aðilar að Háskólasetri Vestfjarða og standa nú 42 stofnanir og fyrirtæki að Háskólasetrinu. Nýju aðilarnir eru Arnarlax, Arctic Fish, Kerecis, Þörungaverksmiðjan, Kol og Salt og Steig (Bæjarins besta). Hver nýr aðili greiðir 300 þúsund krónur í stofnfé. Það er nú 8.100.000 kr.

Háskólasetur Vestfjarða var stofnað sem sjálfseignarstofnun árið 2005 og tók til starfa í janúar 2006. Við það starfa 9 manns í 7 stöðugildum, auk kennara, en þeir eru allir ráðnir sem stundakennarar.

Háskólasetrið er fjarnámssetur í Vestrahúsinu á Ísafirði sem þjónustar fjarnema, sem hafa verið vel á annað hundrað og það starfrækir meistaranám í byggðafræði og hafog strandsvæðastjórnun fyrir um 40 meistaranema auk þess að bjóða upp á margs konar sumarnámskeið.

Á síðasta ári voru tekjur Háskólasetursins 190 milljónir króna. Stærsti tekjurliðurinn er framlög ráðuneyta sem var 100 m.kr. og tekjur vegna meistarnáms 28 m.kr. Laun og tengd gjöld voru stærsti einstaki útgjaldaliðurinn 89 m.kr.

Peter Weiss.

Peter Weiss, forstöðumaður Háskólasetursins segir að það, sem kannski hafi vaxið mest sé, sá hópur fólks sem er hér vegna tilvistar Háskólasetursins og starfar við rannsóknir og tengd verkefni. Nefnir hann sem dæmi að á Ísafirði er starfsmaður rannsóknarstofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri, 2 stöðugildi hjá bandarískum samstarfsháskólum og Fulbright styrkþegi.

Allir þeir sem eiga aðild að Háskólasetri Vestfjarða ses. eiga einn fulltrúa í fulltrúaráði, og einn til vara, sem fer með æðsta vald stofnunarinnar. Fulltrúaráð kýs stjórn sem í umboði fulltrúaráðsins mótar stefnu um rekstur þess, Formaður fulltrúaráðs Háskólasetursins er Dóra Hlín Gísladóttir, framkvæmdastjóri Viruxal.

Stjórn Háskólasetursins skipa:

  • Elías Jónatansson, formaður stjórnar, forstjóri Orkubús Vestfjarða
  • Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavár hjá Veðurstofu Íslands
  • Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar
  • Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ og arkítekt hjá Kol & salt
  • Stefán B. Sigurðsson, prófessor emeritus, Háskólinn á Akureyri

Í varastjórn eru:

  • Bergvin Eyþórsson, varaformaður Verkalýðsfélags Vestfjarða og skrifstofustjóri
  • Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum
  • Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins
  • Oddur Gunnarsson, forstjóri Matis
  • Kristinn Hermannsson, dósent við Háskólann í Glasgow
DEILA