Rauðisandur: endurheimta 55 hektara af votlendi

Móberg á Rauðasandi. Mynd af fasteignavefnum Fastinn.is.

Votlendissjóður hefur fengið samþykki bæjarstjórnar Vesturbyggðar fyrir endurheimt votlendis á um 55ha svæði á jörðinni Móberg, Rauðasandi. Áætlaður framkvæmdatími er ágúst og september 2022.

Landgræðslan hefur mælt losun svæðisins og staðfest. Starfsmenn hennar stýra verkinu sem verður unnið af verktakanum Þotunni frá Bolungavík og undirverktaka hennar frá Tálknafirði.

Samkvæmt umsókninni hefur enginn búskapur verið stundaður á Móbergi síðan 1995. Á fyrirhuguðu endurheimtasvæði er lítill landhalli. Engar minjar eru skráðar á jörðinni (kortavefur Minjastofnunar Íslands). Syðst á svæðinu er einn raflínustaur, endurheimtin mun ekki hafa áhrif á línuna eða framtíðar áform er línan verður lögð í jörðu. Erindinu fylgir yfirlitsmynd af landinu, samantekt frá RFK ráðgjöf dags. 11.02.2022 ásamt kynningarriti Skipulagsstofnunar um Endurheimt votlendis.

DEILA