Prestum fækkar á Vestfjörðum

Ásta Ingibjörg Pétursdóttir við athöfn á sjómannadaginn í Bolungavík. Mynd: Helgi Hjálmtýsson.

Starfandi prestum þjóðkirkjunnar mun fækka um einn á norðanverðum Vestfjörðum um áramótin næstkomandi. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, sóknarprestur í Bolungavík flyst til innan Þjóðkirkjunnar og tekur um áramótin við nýju starfi prests í Laugardalnum í Reykjavík. Ásta segist munu starfa með prestum við Áskirkju og Laugarnes- og Langholtskirkjur. Ásta hefur verið prestur í Bolungavík í 10 ár og tók við af sr Agnesi Sigurðardóttur þegar hún varð biskup.

Fjölnir Ásbjörnsson mun þjónusta Bolungavík og Hildur Inga Rúnarsdóttir tekur við Súðavík. Öllum sóknum á norðanverðum Vestfjörðum hefur verið steypt saman í eitt prestakall, Ísafjarðarprestakall, og eru allir prestar þjónandi við það. Eftir breytinguna verða þrír prestar í prestakallinu í stað fjögurra áður. Sr Fjölnir mun hafa starfsstöð í Bolungavík verður þar með skrifstofu.

DEILA