Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn í Ísafjarðardjúpi gerir upp sumarið í eftirfarandi færslu. Þar kemur fram að hyskap er lokið og dilkar líta vel út. Að venju snarar Indriði fram vísu.
Nú er í Djúpi dásemd mörg.
Dregur í búið sérhver björg.
Gulkan byrjar lauf að lita
í logni og sautján stiga hita.
Heyskap lokið, húsdýraáburður kominn á tún, þokkaleg silungsveiði og enginn hnúðlax, litklæðaglatt berjafólk um allar hlíðar en berin eru farinn að gefa eftir í gæðum, vegna þriggja hélunótta og haustlitir að byrja að sjást á kjarrinu. Undarlegt veðurfarssumar, stundum of kalt, stundum of þurrt, stundum of blautt og hráslagalegt. Dilkar líta þó vel út, virðist mér.

Enda þetta á alkunnri vísu sem ég bið lesendur að hjálpa mér með höfund að.
Sumri hallar, hausta fer,
heyrið, snjallir ýtar.
Hafa fjallahnjúkarnir
húfur mjallahvítar.