Miklar framkvæmdir í Árneshreppi

Miklar og fjölbreytilegar framkvæmdir standa nú yfir í Árneshreppi. Skúli Gautason, verkefnisstjóri Áfram Árneshrepps, sem er heitið á þátttöku Brothættra byggða í Árneshreppi, segir að mikið átak sé nú í gangi við uppbyggingu innviða í hreppnum. Orkubú Vestfjarða er að leggja þriggja fasa streng sem mun ná alla leið norður í Krossneslaug. Reyndar var búið að leggja þriggja fasa streng um hluta sveitarfélagsins þegar kom að reglubundnu viðhaldi fyrir nokkrum árum, en nú tengist sveitarfélagið inn á dreifikerfið með þrífösun. Má ætla að þrífösunarátakið verði mikil lyftistöng fyrir atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu, sem iðulega hefur strandað á rafmagnsskorti. Settar verða upp hleðslustöðvar í Djúpavík, á Urðartindi, í Norðurfirði og við Krossneslaug. Til uppsetningar hleðslustöðvar við Krossneslaug fékkst á dögunum 10 milljón króna styrkur úr Orkusjóði. Í sömu atrennu verður lagt rör fyrir ljósleiðara og nær allt sveitarfélagið tengt ljósleiðaranetinu. Við það verður algjör bylting í nettengingu og netöryggi stóreykst þar sem ljósleiðarinn er allur grafinn í jörð og því ónæmur fyrir veðri og vindum. Til ljósleiðaravæðingarinnar fékkst styrkur úr Fjarskiptasjóði, um 46,5 milljónir króna. Nokkrir nýbúar í Árneshreppi hafa unnið í fjarvinnu, jafnvel stundað vinnu erlendis yfir netið og standa vonir til þess að slíkum íbúum fjölgi í kjölfar ljósleiðaravæðingarinnar. Með ákveðinni bjartsýni er hægt að vonast til að þrífösun og ljósleiðaravæðingu alla leið í Krossneslaug ljúki á þessu ári, en í öllu falli á því næsta.

Við höfnina í Norðurfirði er að hefjast mikil umbótavinna sem miðar að því að fegra ásýnd staðarins og ekki síst að auka öryggi ferðamanna, en þeir hafa sýnt löndun og starfsemi strandveiðisjómanna mikinn áhuga. Við það skapast ákveðin slysahætta, en verkefninu er ætlað að draga verulega úr henni. Til verkefnisins fékkst myndarlegur styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, um 55 milljónir króna. Er áætlað að því verkefni verði lokið á árinu 2023.

Undirbúningur er hafinn að því að leggja hitaveitu úr borholu við Krossneslaug inn í Norðurfjörð. Síðastliðinn vetur fóru fram dælu- og rennslisprófanir á borholunni og urðu niðurstöður þær að hún gæfi um 6 sekúndulítra af 65°C heitu vatni, en það ætti að duga vel til fyrir Krossneslaug og byggðina allt inn í botn Norðurfjarðar, en lagnaleiðin er um fjórir kílómetrar. Nú standa yfir hagkvæmnisútreikningar og kostnaðarmat fyrir hitaveituna. Var verkfræðistofan Stoð ehf á Sauðárkróki til verksins. Þeirri forhönnun ætti að vera lokið í haust og gangi allt að óskum verður hægt að fara í framkvæmdir við lagningu hitaveitunnar á næsta ári. Til undirbúnings verkefnisins fékkst styrkur úr potti C1 í Byggðaáætlun, um 5,6 milljónir króna. 

Skúli segir að mörg fleiri verkefni séu í pípunum. Í Djúpavík er unnið að undirbúningi Jógaseturs sem er langt komið og tekur vonandi til starfa á næsta ári. Þar hefur einnig verið unnið að umsókn um stóran Evrópustyrk til að koma upp Baskasetri. Þar verður sett upp nýstárleg og spennandi sýning um veru Baska hér við land fyrr á öldum auk þess sem ljósi verður brugðið á tíðarandann þá og nú. Einnig er opin myndlistarsýningin The Factory, þar sem fjöldi listamanna, innlendra sem erlendra, leiða saman hesta sýna í hinum mögnuðu byggingum gömlu síldarverksmiðjunnar í Djúpavík.

DEILA