Mikil andstaða við gjaldtöku í jarðgöngum

Frá vígslu Bolungavíkurganganna 25. september 2010. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Mikil andstaða kemur fram við fyrirhugaða gjaldtöku af umferð um jarðgöng landsins bæði í könnun Maskínu sem birt var í gær og í umsögnum um fyrirhugað frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða sem hefur verið í kynningu í samráðsgátt stjórnvalda.

Samkvæmt könnun Maskínu eru 55% andvíg gjaldtökunni og aðeins 22% hlynnt. Í öllum landshlutum er meirihluti andvígur gjaldtökunni. Mest er andstaðan á Vesturlandi og Vestfjörðum eða 75% og einnig mjög mikil á Austurlandi eða 72%. Greint frá könnuninni í fréttum stöðvar2 og á visir.is.

Alls bárust 11 umsagnir í samráðsgáttinni og voru þær allar neikvæðar í garð gjaldtökunnar. Þrjú sveitarfélög sendu inn umsögn, Bolungavíkurkaupstaður, Fjallabyggð og Fjarðabyggð. Auk þess sendu Bændasamtök Íslands inn umsögn og 7 einstaklingar.

Í umsögn Bolungavíkur er minnt á að með Bolungarvíkurgöngum kom til umtalsvert hagræði í rekstri ríkisins „sem varð á kostnað samfélagsins í Bolungarvík. Fyrir göng var sýslumaður í Bolungarvík, lögregla, læknir og banki. Í dag eru allar þessar stofnanir farnar, störfin flutt í burtu og húsnæðið undir starfsemina hefur verið selt.“

Bolungarvíkurkaupstaðar skorast ekki undan við að greiða sinn hluta í innviðagjöldum til uppbygginar samgönguinnviða en óskar eftir því að fundin verði sanngjörn leið til gjaldtökunnar þar sem hluteigendur séu allir notendur vegakerfis í landinu og jafnræðissjónarmið íbúa verði haft að leiðarljósi.

 Fjarðabyggð leggst alfarið gegn þeim áformum ríkisstjórnarinnar með frumvarpi um gjaldtöku af samgöngumannvirkjum eins og þær liggja fyrir. Bent er á að tekjur af gjaldi af umferð um Norðfjarðargöng myndu skila um 87 milljónum kr. á ári eða 1,3 milljörðum kr. á 15 árum miðað við 300 kr gjald. „Þetta framlag íbúa, ferðamanna og fyrirtækja í 1.500 manna samfélagi til flýtiframkvæmda annars staðar, eru miklar álögur. Samfélög sem landfræðilega er þannig sett að þurfa ekki á jarðgöngum að halda þyrftu ekki að bera þær álögur.“

DEILA