Matvælaráðherra lætur gera skýrslu um lagareldi á Íslandi

Seiðaeldisstöð Arctic Fish á Tálknafirði.

Samkvæmt ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra er hafin vinna við gerð skýrslu á stöðu lagareldis á Íslandi. Lagareldi er yfirheiti yfir sjókvía-, land-, þörunga- og úthafseldi.

Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að matvælaráðuneytið hafi samið við bandaríska ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting um gerð skýrslunnar þar sem gerð verður ítarleg úttekt á stöðu lagareldis á Íslandi. Í skýrslunni verða greindir framtíðarmöguleikar og áskoranir greinarinnar og mun sú vinna nýtast við stefnumótun matvælaráðherra. Tekið verður mið af umhverfismálum, verðmætasköpun og regluverki. Til samræmis við stjórnarsáttmála verður áhersla lögð á að kortleggja tækifæri til sjálfbærs vaxtar greinarinnar með vísindalega þekkingu að leiðarljósi. Höfð verður hliðsjón af samanburðargreiningu við þau lönd sem helst stunda lagareldi. Einnig verður gerð úttekt á mögulegum mótvægisaðgerðum vegna umhverfisáhrifa af hinni ýmsu starfsemi s.s. sjókvíaeldis.

Mikill vöxtur hefur verið í leyfisveitingum til sjókvíaeldis og framleiðslu á laxi undanfarin áratug á Íslandi. Einnig liggja fyrir áætlanir um framleiðslu á laxi á landi af stærðargráðu sem eiga sér ekki fordæmi hérlendis. Áhugi á þörungarrækt hefur jafnframt aukist verulega.

„Það er augljóst að lagareldi er framtíðaratvinnugrein á heimsvísu,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. „Það eru í senn okkar forréttindi og ábyrgð að koma málum í þann farveg að greinin eigi sér bjarta framtíð á Íslandi, með hagsmuni samfélags og náttúru að leiðarljósi“.

Gert er ráð fyrir að skýrslan verði tilbúin í nóvember á þessu ári.

DEILA