Laxeldi: starfsleyfi Arctic Fish í Tálknafirði og Patreksfirði breytt

Frá eldissvæðinu. Mynd: Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun hefur gefið út breytingu á starfsleyfi Arctic Sea Farm hf. í Patreks- og Tálknafirði. Leyfið var gefið út 2019 og er til framleiðslu í sjókvíaeldi með allt að 7.800 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Sótt var um breytinguna í apríl 2021.

Breytingin felur í sér breytingu á svæði í Patreksfirði, heimild til notkunar ásætuvarna á eldiskvíunum ásamt styttingu hvíldartíma. Einnig voru gerðar breytingar og uppfærslur á leyfinu til samræmis við nýjustu leyfi sem gefin eru út af stofnuninni.

Hnit eldissvæðanna er breytt en þau eru við Kvígindisdal í Patreksfirði og Hvannadal í Tálknafirði. Þá er hvíldartími edissvæðis styttur úr 6 mánuðum í 90 daga.

Starfsleyfið svo breytt hefur þegar tekið gildi og gildir til 26. ágúst 2035. Unnt er að kæra starfsleyfið til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál innan mánaðar frá útgáfu þess, sem var 14. júlí sl. Stofnunin hefur víðtækar heimildir til þess að breyta starfsleyfinu ef breytingar verða á ýmsum atriðum eins og þar er nánar tilgreint.

Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn hafa kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál heimildina til þess að nota ásætuvörnina með koparoxíð og bíður kæran afgreiðslu nefndarinnar.

Þá hefur einnig verð kærð sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að þessar breytingar gæfu ekki tilefni til þess að fram færi að nýju mat á umhverfisáhrifum.

Ein athugasemd barst við breytingarnar og var hún frá R. Marino Thorlacius landeiganda í Örlygshöfn. Taldi hann m.a. ekki forsvaranlegt að gefa út breytingar á leyfinu meðan ekki hefði verið úrskurðað um ákvörðun Skipulagsstofnunar. Í svari Umhverfisstofnunar ekki sé ástæða til að fresta að gefa út leyfi á meðan matsskylduákvörðunin er í kæruferli. Verði niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella ákvörðun Skipulagsstofnunar úr gildi þá er stofnuninni heimilt að endurskoða starfsleyfið. Um aðrar athugasemdir landeigandans segir Umhverfisstofnun að tilfærsla eldissvæðanna breyti því ekki að svokölluð ásýndaráhrif verða afturkræf þegar eldi verður hætt og að styttri hvíldartími hafi óveruleg áhrif á ásýnd svæðisins.

Þá var gerð athugasemd við að hafnaraðstaða í Örlygshöfn lokist af við heimilun svæðis. Umhverfisstofnun vísar í niðurstöðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur að breyting á svæðinu við Kvígindisdal muni ekki hafa áhrif á siglingar þar sem það sé á þeim staði í firðinum þar sem umferð báta er sem minnst. Umhverfisstofnun getur ekki séð að breytingin loki fyrir umferð um höfnina.

DEILA