Landsnet: ákvörðun Skipulagsstofnunar seinki ekki spennusetningu strengsins yfir Arnarfjörð

Fyrirhuguð leið rafstrengsins frá Mjólká til Bíldudals.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets segir að Landsnet muni um að vinna að aðalskipulagsbreytingu vegna nýs rafstrengs frá Mjólká til Bíldudals með það í huga að tryggja að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fara verði með breytinguna sem verulega hafi ekki áhrif á áætlaðan framkvæmdatíma og spennusetningu strengsins á seinni hluta árs 2024.

Hinn nýi rafstrengur mun auka öryggi raforkunotenda á sunnanverðum Vestfjörðum.

Hún segir að framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag Vesturbyggðar, en gera þurfi breytingar á gildandi aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar, áður en hægt er að sækja um framkvæmdaleyfi til Ísafjarðarbæjar. Nýlega ákvað Skipulagsstofnun að breytingin teldist vera veruleg, sem þú umfangsmeira og tímafrekara ferli.

Stofnunin vísaði m.a. til þess að það þyrfti að vera ljóst hvort og hvaða samráð hefði verið haft við landeigendur á strengleiðinni. Þá tengdi stofnunin ákvörðun sína við nýtingu haf- og strandsvæða Arnarfjarðar. Skipulagsstofnun segir að í verulegu breytingunni sem gera þurfi á aðalskipulagi Ísafjarðar verði m.a. að gera grein fyrir valkostum jarð- og sæstrengs og þau áhrif sem strengur kann að hafa á skerðingu á nýtingu hafsins.

Steinunn segir að Landsnet muni nú taka upp að nýju samtal við Ísafjarðarbæ um aðalskipulagsbreytinguna.

„Í skipulagsvinnunni mun m.a. verða farið yfir ábendingar um valkosti, en Landsneti er kunnugt um að ábendingar hafa komið fram um aðra legu strengsins og landtöku sæstrengsins norðan megin Arnarfjarðar.

Ljóst er að áskorun er að koma fyrir sæstreng samhliða margvíslegri starfsemi í Arnarfirði og strenglögn getur mögulega haft áhrif á staðbundna nýtingu hans. Hins vegar þarf Landsnet huga að rekstralegu öryggis raforkukerfisins, auk þess að lágmarka orkutöp og nýta vel það takmarkaða svigrúm sem er til jarðstrengslagna á svæðinu, en lengd þessa strengjar hefur áhrif á lengd jarðstrengja á öðrum svæðum á Vestfjörðum, þess vegna er leitað leiða til að stytta lagnaleið strengjanna eins og kostur er. Þessu mun verða gerð betur grein fyrir í skipulagsferlinu sem er framundan auk þess að upplýsa um samráð við hagsmunaaðila við undirbúning verksins.

Margar þær upplýsingar sem farið er fram á að verði teknar saman og kynntar í opnu kynningarferli skipulagsbreytingarinnar liggja nú þegar fyrir. Landsnet væntir góðs samstarfs við Ísafjarðbæ, sem og hagsmunaaðila á svæðinu um að vinna að skipulagsbreytingunni með það í huga, til að tryggja að ákvörðunin hafi ekki áhrif á áætlaðan framkvæmdatíma og spennusetningu seinni hluta árs 2024.“

DEILA