Knattspyrna: Vestri vann Fjölni örugglega

Frá leik Vestra við HK fyrr í sumar. Knötturinn í marki HK eftir jöfnunarmark Vestra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Karlalið Vestra átti góðan dag í gær þegar liðið mætti Fjölni í Lengjudeildinni á Ísafirði. Þrátt fyrir að Fjölnir hafi verið í 3. sæti deildarinnar og í góðu færi til að keppa að úrvalsdeildarsæti var það Vestri sem hafði tögl og haldir í leiknum nánast allan leikinn. Nicolaj Madsen og Pétur Bjarnason skoruðu fyrir heimamenn í fyrri hálfleik og í þeim síðari bættu Vladimir Tufegdzic og Pétur við öðrum tveimur mörkum, en Fjölnismenn gerði aðeins eitt mark.

Pétur Bjarnason var besti maður Vestra í leiknum , skoraði tvö mörk og vann auk þess vítaspyrnu. Annars léku Vestramenn allir vel og Silas hafði sýnt góða takta þann tíma sem hans naut við, en hann þurfti að fara af vellistrax í fyrri hálfleik vegna meiðsla.

Með sigrinum gulltryggði Vestri veru sína í Lengudeildinni á næsta ári, er með 25 stig í 7. sæti. Fjórar umferðir eru eftir af deildinni.

DEILA