Kampi: 173 m.kr. hagnaður í fyrra

Kampi ehf. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hagnaður varð á rekstri Kampa á Ísafirði á síðasta ári um 173.385.039 kr. Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir felagsins um síðustu áramót 577.355.288 kr. og eigið fé i árslok var 45.935.398 kr. Ekki verður greiddur arður að þessu sinni.

Kampi fékk í byrjun ársins heimild til greiðslustöðvunar og heimild til að leita nauðasamninga í ágúst 2021.
Nauðasamningar voru staðfestir í október 2021. Lánadrottnar samþykktu að fella niður 70% af lýstum kröfum eða um 257 milljónir króna. Að fenginni niðurfellingunni varð 173 m.kr. hagnaður af rekstri félagsins. Tekið var 200 milljóna króna lán til þess að standa við samningana og að greiða kröfur sem féllu utan við nauðasamningana. Fram kemur í ársreikningi félagsins að unnið er að því að afla nýs hlutafjár til þess að styrkja ennfrekar fjárhagsstöðu félagsins.

Í félaginu eru 8 hluthafar. Birnir ehf er þeirra langstærstur með 70,71 % hlutafjár. Hvetjandi hf á 10,01%,Símon Þór Jónsson á 6,43% og Hugljúf Ólafsdottir 4,29%. Fjórir hluthafar eiga 2,14% hver. Þeir eru: Gegnir ehf., Albert G. Haraldsson, Vilhjálmur Matthíasson og G. Salmar Jóhannsson.

Tekjur Kampa á síðasta ári námu 876 m.kr. en þær voru 2.685 m.kr. árinu áður. Laun og tengd gjöld voru helsti útgjaldaliður fyrir utan hráefniskaup. þau voru 315 m.kr. í fyrra , nánast það sama og árinu áður. Eignir í árslok voru metnar á 577 m.kr og skuldir voru 531 m.kr. Að meðaltali voru 33 stöðugildi hjá félaginu í fyrra, tveimur færra en árinu áður.

Stjórn félagsins telur ekki leika vafa á rekstrarhæfi Kampa.

DEILA