Jarðgöng: andstaða eða stuðningur við gjaldtöku?

Á tveimur dögum birtust niðurstöður úr tveimur könnunum um veggjöld til jarðgangagerðar sem við fyrstu sýn virðast sýna mjög ólíka afstöðu til málsins. Sú fyrri var birt á Stöð2 og visir.is og var gerð af Maskínu. Þar kom fram mikil andstaða við við fyrirhugaða gjaldtöku af umferð um jarðgöng landsins. Samkvæmt könnun Maskínu eru 55% andvíg gjaldtökunni og aðeins 22% hlynnt. Í öllum landshlutum er meirihluti andvígur gjaldtökunni. Mest er andstaðan á Vesturlandi og Vestfjörðum eða 75% og einnig mjög mikil á Austurlandi eða 72%. 

Seinni könnunin var unnin af Prósent og birtist í Fréttablaðinu í gær. Þar var fréttin að 60% svarenda styðji veggjöld til jarðgangagerðar.  það er styðji að ríkið fjármagni jarðgangagerð að hluta til eða öllu leyti með veggjöldum. Flestir, 35,7 prósent, vilja að ríkið fari blandaða leið fjármögnunar með veggjöldum og skattfé. Tæpur fjórðungur, 24,4 prósent, vill að gangagerðin sé alfarið fjármögnuð með veggjöldum. Samanlagt gerir þetta 60,1 prósent.

Flestir þeirra sem eru á móti veggjöldum vilja að ríkið fjármagni jarðgangagerð alfarið með skattfé, eða 31,7 prósent þeirra sem svöruðu. 3,8 prósent vilja að fjármögnunin sé með öðrum hætti og 4,3 prósent vilja ekki að ríkið fjármagni jarðgangagerð yfir höfuð.

Sértæk gjaldtaka á jarðgöng og almenn veggjöld

Við fyrstu sýn mætti ætla að kannanirnar stangist á en við nánari athugun er það ólíklegt. Miklu fremur má ætla að báðar kannanirnar gefi góða mynd af viðhörfi landsmanna. Það er nefnilega ekki verið að spyrja sömu spurningarinnar. Í könnun Maskínu er spurt: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu fyrirhugaðri gjaldtöku í öllum jarðgöngum á Íslandi. Kynnt hefur verið að gjaldtakan komi til með að standa undir 50% af kostnaði við jarðgöng.

Þetta er ekki sama spurning og virðist hafa verið borin upp í könnun Prósents. Þar er spurt almennt um afstöðu til veggjalda sem renni til að fjármagna jarðgangagerð. Ekki er einskorðað við veggjöld af umferð í gegnum jarðgöng heldur yrðu almennt veggjöld af umferð. Þetta er allt önnur spurning. Hér myndi allir greiða veggjald án tillits til þess hvort ekið væri um jarðgöng eða annars staðar. Enda eru svörin á annan veg en við fyrri könnuninni og miklu jákvæðari í garð veggjalda.

Almenn en ekki sértæk gjaldtaka

Niðurstaða mín er að þessar tvær kannanir sýni almennan stuðning við að greiða veggjöld til að fjármagna jarðgangagerð a.m.k. að hluta til á móti framlagi ríkisins og líka almenna andstöðu við sértæka gjaldtöku af umferð um jarðgöng til að afla fjár en sleppa annarri umferð.

Stjórnvöld geta, ef vilji er fyrir hendi, unnið upp tillögur að fjármögnun jarðgangagerðar sem munu hljóta almennan stuðning og verða til þess að bylting er framundan í samgöngum margra byggðarlaga, öllum landsmönnum til góða. Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson kemur til með að leiða þetta starf og fær einstakt tækifæri til þess að setja aukinn kraft í jarðgangagerð á landinu.

-k

DEILA