Jarðgangaskattur: 330 þús kr á ári fyrir Bolungavíkurgöng

Baldur Smári Einarsson bæjarfulltrúi í Bolungavík.

Sérstakt gjald fyrir umferð um jarðgöng er fyrirhugað og hefur Innviðaráðuneytið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda áform um lagasetninu sem greiði fyrir flýtingu mikilvægra framkvæmda með því heimila stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða.

Opinbera hlutafélagið eða hlutafélögin verði um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða. Í frumvarpinu verður hlutverk og markmið slíks félags skilgreint nánar ásamt þeim heimildum sem það hefur.

Þá er sérstaklega tilgreint að mótuð verði áætlun um uppbyggingu og fjármögnun jarðganga og horft til reynslu nágrannaþjóða í því samhengi. Stofnað verði opinbert félag um jarðgangagerð. Fram kemur að notkunargjöld séu hluti áforma um flýtingu mikilvægra samgönguinnviða. „Fjármögnun slíkra framkvæmda mun geta haft áhrif á fjárhag ríkissjóðs þó framkvæmdakostnaður verði endurheimtur yfir lengri tíma.“ segir í samráðsgáttinni.

Athugasemdafrestur rennur út í dag og höfðu í gærkvöldi borist 4 umsagnir, ein frá bæjarstjórn Fjallabyggðar og þrjár frá einstaklingum.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar fordæmir harðlega þá hugmynd að taka upp gjaldtöku í öllum jarðgöngum landsins, óháð staðsetningu og ástandi, til að standa undir kostnaði við framkvæmdirnar og hvetur til að aðrar og sanngjarnari leiðir til fjármögnunar á samgöngumannvirkjum séu skoðaðar. Í umsögninni segir:

„Fjallabyggð er líklegast það byggðarlag sem myndi fara hvað verst út úr gjaldtöku á öll jarðgöng, þar sem jarðgöng eru sitt hvorum megin við bæjarfélagið þ.e. Strákagöng og Múlagögn auk þess sem Héðinsfjarðargöng tengja bæjarfélagið saman. Íbúar Fjallabyggðar gætu þá hvorki farið á milli bæjarhluta til að sækja almenna þjónustu eða atvinnu innan bæjarfélagsins, né út úr bænum nema gegn gjaldi um löngu úreld samgöngumannvirki“

Í umsögn Þórodds Bjarnasonar, fyrrverandi stjórnarformanns Byggðastofnunar og prófessors við Háskólann á Akureyri er vakin athygli á þeim rökum að notendur tiltekinna samgöngumannvirkja eigi að greiða kostnað af framkvæmdum við samgöngubætur annars staðar á landinu. „Spyrja mætti hvers vegna vegfarendur á landsvæðum þar sem jarðgöng eru brýn nauðsyn ættu að greiða fyrir samgöngubætur annars staðar umfram þá sem fara t.d. um brýr, mislæg gatnamót, 2+2 vegi, hafnir, flugvelli eða önnur kostnaðarsöm samgöngumannvirki“ segir í umsögn Þórodds.

Reiknast Þóroddi til að miðað við 300 kr gjald og 1.650 ferðir á dag um Bolungavíkurgöng myndu innheimtast 2,7 milljarðar króna á 15 ára tímabili sem samgönguáætlunin nær til.

Baldur Smári Einarsson, bæjarfulltrúi í Bolungavík leggur út af forsendu Þórodds um 300 kr gjald fyrir hverja ferð. „Ég myndi halda að ég sjálfur fari að jafnaði 1,5 ferð á dag til Ísafjarðar um Bolungarvíkurgöng þar sem ég stunda vinnu á Ísafirði og þarf að sækja ýmsa þjónustu þangað utan vinnutíma. Það þýðir um 330.000 í aukaskatt á ári hverju.“

DEILA