Ísófitmálið: sveitarfélaginu óheimilt að brjóta gegn samningnum

  Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

  Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að samningur bæjarins við Ísófit um styrk til reksturs líkamsræktarstöðvar hafi verið gerður í góðri trú þriðja aðila og sé sveitarfélaginu óheimilt að brjóta gegn eða rifta þeim samningi, einungis á grundvelli úrskurðar ráðuneytisins í máli Þrúðheima gegn Ísafjarðarbæ.

  Þá segir hún að sveitarfélagið telur að ráðuneytið hafi brotið stjórnsýslulög við meðferð málsins. Ennfremur kemur fram í svari bæjarstjóra við fyrirspurn Bæjarins besta að Ísafjarðarbær hafi átt samtal við forsvarsmenn Þrúðheima, sem kærðu málið til Innviðaráðuneytisins, vegna málsins eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp og er lögð áhersla á að málið leysist farsællega.

  Svarið í heild:

  „Innviðaráðuneytið kvað upp úrskurð í máli nr. IRN22010598, þann 23. júní 2022, þar sem ráðuneytið taldi að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar vegna þeirrar stjórnsýsluákvörðunar sem tekin var um styrkveitingu vegna líkamsræktarstöðvar á Ísafirði á árinu 2020. Þar af leiðandi hefði ákvörðun bæjarstjórnar um samþykki styrktarsamnings verðið ólögmæt.

  Bæjarstjórn samþykkti umræddan samning á 461. fundi sínum þann 17. september 2020, að veita félaginu Ísófit ehf. styrk til reksturs líkamsræktarstöðvar. Sá samningur var gerður í góðri trú þriðja aðila og er sveitarfélaginu óheimilt að brjóta gegn eða rifta þeim samningi, einungis á grundvelli úrskurðar ráðuneytisins í máli Þrúðheima gegn Ísafjarðarbæ.

  Ísafjarðarbær hefur upplýst ráðuneytið um að kæra, málsgögn og umsagnarbeiðni um málið hafi ekki borist sveitarfélaginu. Sveitarfélaginu gafst því ekki kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við ráðuneytið áður en úrskurður var kveðinn upp. Sá þáttur málsins verður unninn frekar með ráðuneytinu, enda telur sveitarfélagið að ráðuneytið hafi brotið stjórnsýslulög við meðferð málsins.

  Ísafjarðarbær hefur átt samtal við forsvarsmenn Þrúðheima vegna málsins eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp og er lögð áhersla á að málið leysist farsællega.

  Ísófit hefur byggt upp góða líkamasræktaraðstöðu fyrir íbúa sveitarfélagsins m.a. í krafti samningsins. Það er mikilvægt sé slík aðstaða verði áfram í boði. Ísafjarðarbær leggur áherslu á að vera heilsueflandi samfélag. Hér býr öflugt og kraftmikið fólk, og er mikilvægt að allir finni sér hreyfingu við hæfi, hvort sem er í líkamsræktarstöð eða úti í náttúrunni okkar.“

  DEILA