Ísafjörður: Flokksráðsfundur Vinstri grænna hafinn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vg.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna setti fundinn og minntist í upphafi ræðu sinnar á fyrstu ferð sína til Ísafjarðar þegar hann fjögurra ára gamall kom með foreldrum sínum, en móðir hans er fædd og uppalin á Hlíðarveginum – „var og er Hlíðarvegspúki“.

„Fyrir strák úr sveit var það talsvert ævintýralegt að heyra af uppvexti móður sinnar sem ólst upp í kaupstað, þar sem var draumkennt bakarí og þar sem krakkar byrjuðu að vinna í verksmiðju, þ.e.a.s. í rækjuvinnslunni, átta eða níu ára gömul. Þegar ég kom hingað að kenna við Háskólasetrið einum 30 árum síðar, þá var enn sama bakarí og Ruth, þá nærri hundrað ára gömul, stóð enn vaktina. Þegar ég kynnti mig fyrir henni og sagði á mér deili, þá bað hún mig um að færa mömmu minni kringlur frá sér, en börn fengu ókeypis kringlur á sunnudögum í bakaríinu á Ísafirði þegar mamma ólst upp.“

Í framhaldi af þessari æskuminningu sagði Guðmundur Ingi að eitt af því sem ætlunin væri að ræða um helgina er byggðastefnan og framtíðin og hvernig VG getur og á að marka spor og leiða vagninn.

Stærsta verkefnið er að ná niður verðbólgu

„Stærsta verkefni efnahagsstjórnunar á Íslandi í dag er að ná niður verðbólgu. Það er sameiginlegt verkefni. Kjarasamningar eru brátt lausir og aðilar vinnumarkaðarins farnir að brýna kutana. Kaupmáttur hefur aukist mikið á undanförnum árum og Lífskjarasamningarnir færðu láglaunafólki raunverulega betri kjör, ásamt skattkerfisbreytingum með þriggja þrepa skattkerfi sem gerðist fyrir tilstilli VG. En, of margt fólk berst í bökkum, getur ekki látið enda ná saman í lok mánaðar og þarf að neita börnunum sínum um nauðsynjar.

Mín pólitíska sýn er að halda þurfi áfram að bæta kjör láglaunafólks, kjör örorkulífeyrisþega og eldra fólks sem er með lægstu tekjurnar. Það einkennir þau fátækustu í þessum hópum að þau búa á leigumarkaði, oft einstæðir foreldrar. En mig svíður líka undan því kerfisbundna óréttlæti sem felst í að stórar kvennastéttir eru á lægri launum, konurnar í umönnunarstörfunum. Í mikilvægustu störfunum. Hér er aðgerða þörf.“

Frá flokksráðsfundinum. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA